Sjálfbærni

Hringrásarhagkerfið

Hringrásarhagkerfið hefur verið sífellt meira í umræðunni með aukinni sjálfbærnivitund. Það er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með því að reyna að viðhalda verðmætum þeirra eins lengi og hægt er, með því að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna.

Segja má að áherslur okkar í tjónaþjónustu hafi um langan tíma rímað við áherslur hringrásarhagkerfisins, þar sem unnið hefur verið að því að koma í veg fyrir og lágmarka tjón, nýta tjónaða muni áfram og gera við það sem hægt er.

Sjálfbærni í tjónaþjónustu

Við leggjum ríka áherslu á að sinna forvörnum af krafti til að koma í veg fyrir tjón og fyrirbyggjum þannig sóun sem gæti orðið þeim tengd, eins og farið er yfir í kaflanum Forvarnir og öruggara samfélag.

Verði tjón gerum við allt sem við getum til að reyna að lágmarka tjón og minnka umfang þess. Við erum með tjónavakt allan sólarhringinn og með þeim hætti geta viðskiptavinir alltaf haft samband við okkur og við leiðbeint þeim hratt og vel til að takmarka tjónið, bæði með ráðgjöf á tjónsstað, í gegnum síma og í gegnum fjarskoðunarlausnina Innsýn. Snör og rétt viðbrögð geta haft mikið að segja um umfang tjóns og því mikilvægt að bjóða upp á þessa aðstoð sérfræðinga okkar.

Við leitum einnig leiða til að nýta tjónaða muni áfram, líkt og þá sem hafa aðeins orðið fyrir útlitsskemmdum en hafa enn fullt notagildi. Það gerum við ýmist með því að bjóða viðskiptavinum okkar að nota þá áfram eða með því að koma þeim munum sem við eignumst til annarra sem þá geta nýtt.

Þá leggjum við áherslu á að gera við þá hluti sem hægt er að gera við í stað þess að skipta þeim út. Þá er líkt og svo oft lykilatriði að eiga gott og upplýsandi samtal við viðskiptavini til að þeir séu upplýstir um alla kosti viðgerða, sem oftar en ekki eru margþættir eins og lýst verður hér á eftir.

Þegar kemur að hringrásarhagkerfinu er samvinna lykilatriði enda allra hagur að tjónið verði sem minnst og vinnsla þess kosti sem minnstu til. Með aukinni sjálfbærnivitund og umræðu, bæði hjá starfsfólki Sjóvá, birgjum og viðskiptavinum, hefur verkefnum sem tengjast hringrásarhagkerfinu fjölgað og meðvitundin um að reyna að lágmarka sóun orðið almennari en áður.

Gert við fleiri framrúður

Eitt af þeim verkefnum sem hefur fengið hvað mesta athygli og gengið hvað best tengist framrúðuplástrum og aukningu á viðgerðum á framrúðum. Árlega fær mikill fjöldi ökumanna stein í rúðuna þannig að skemmd myndast. Skemmdin er oft lítil í fyrstu en stækkar ef ekki er brugðist við, ekki hvað síst í miklum hita eða í frosti. Við höfum vakið athygli viðskiptavina og annarra á því að ef settur er framrúðuplástur strax á skemmdina aukast líkurnar á því að hægt sé að gera við hana til muna, það þurfi þar með ekki að skipta rúðunni út fyrir nýja. Ávinningurinn fyrir umhverfið er skýr, en samkvæmt útreikningum sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Sjóvá losar það 24.000 sinnum meiri koltvísýring að láta skipta rúðu út en að gera við hana.

Framrúðuplástrar höfðu verið í notkun um hríð áður en að Sjóvá réðst í að endurhanna umbúðir þeirra, með það að markmiði að koma upplýsingum um ávinninginn af notkun þeirra betur til skila til ökumanna og stórauka dreifinguna á þeim. Þetta átak fólst einnig í auknu samtali við samstarfsaðila okkar á verkstæðum. Árangurinn sýnir vel hversu miklu máli upplýsingagjöf og virkt samtal skiptir því við höfum séð hlutfall viðgerða á móti útskiptum á rúðum taka gott stökk upp á við eftir að það hófst, eftir að hafa verið á niðurleið frá 2015.

Hlutfall framrúðuviðgerða var 14,5% á árinu 2023 en 11,9% árið á undan.

Ávinningurinn fyrir viðskiptavininn af því að gera við framrúðu er ekki eingöngu minni sóun. Ef viðgerð á framrúðu er möguleg greiðir Sjóvá viðgerðina að fullu og tjónþoli sleppur við að greiða eigin áhættu. Þá missa viðskiptavinir í vildarþjónustunni Stofni ekki endurgreiðslu vegna tjónleysis ef hægt er að gera við rúðuna. Þessir hvatar hafa án efa líka haft sín áhrif og sýna einnig hversu mikilvægt samtalið við viðskiptavinina er og að komið sé til móts við þá í samræmi við þarfir þeirra.

Frá því að átakið hófst hefur framrúðuplástrinum verið dreift til verkstæða og útibúa okkar um allt land og viðskiptavinir hafa verið látnir vita af honum með ýmsum leiðum, enda mikilvægt að koma plástrinum í sem mesta dreifingu og miðla upplýsingum um tilgang hans sem víðast. Við munum því halda áfram að vinna að þessu verkefni og efla samtal okkar við viðskiptavini og verkstæðin enn frekar. Við bindum vonir við að hlutfall viðgerða haldi áfram að vaxa, enda hefur orðið töluverð vitundarvakning í þessum efnum.

Áskoranir tengdar notuðum varahlutum

Við gerum ríkar kröfur til samstarfsaðila okkar á verkstæðum og að þeir séu meðvitaðir um mikilvægi þess að lágmarka sóun. Eitt af því er krafa um að kanna hvort til sé notaður varahlutur við viðgerðir bifreiða. Við erum með markmið um að auka notkun á notuðum varahlutum í ökutækjatjónum.

Hlutfall notaðra varahluta var

4,6%

í viðgerðum á bifreiðaverkstæðum fyrir Sjóvá fyrir árið 2023

15%

Hlutfall notaðra varahluta var

4,0%

í viðgerðum sem framkvæmdar voru á bifreiðaverkstæðum fyrir Sjóvá fyrir árið 2022

Árangur þessa verkefnis fer mikið eftir því hvort notaðir varahlutir séu til í landinu, en varahlutirnir verða að vera yngri en bifreiðin sem er verið að gera við og í góðu ásigkomulagi þannig að við treystum okkur til að nota þá. Við höfum ekki náð markmiði okkar en fyrirhugað er að auka hlutfallið á næstu árum og taka markviss skref í þá átt strax á árinu 2024.

Viðhald, endurnotkun og endurnýting tjónsmuna

Það er staðreynd að allir munir sem verða fyrir tjóni missa ekki endilega notagildi sitt og oft er áfram hægt að nýta þá í upprunalegum tilgangi, til dæmis ef bara er um útlitsskemmd að ræða eða ef hægt er að gera við hlutinn. Þá eru aðrir hlutir sem mögulega er ekki hægt að nota líkt og áður en hægt er að nýta með öðrum hætti, s.s. með því að búa til eitthvað annað úr hluta hans. Þetta er eitthvað sem starfsfólk okkar í tjónadeild er afar meðvitað um og leitar það stöðugt leiða til að finna nýtilegum hlutum góðan farveg.

Þegar viðskiptavinir okkar eiga bótarétt vegna muna sem hafa skemmst bjóðum við þeim, þegar það er mögulegt, val milli þess að fá hlutinn bættan að fullu gegn afhendingu hans, eða þeir haldi nýtilegum munum og fái greiddar bætur sem endurspegla virði þeirra. Með þessu minnkar sóun og nýtilegir hlutir enda síður í ruslinu, auk þess sem viðskiptavinir hafa aukið valfrelsi um ráðstöfun tjónabóta. Aukin áhersla hefur verið á þessa leið við afgreiðslu munatjóna og má greina að viðskiptavinir séu móttækilegir fyrir þessari leið og meðvitund að aukast um mikilvægi þess að lágmarka sóun.

Við leitum einnig stöðugt leiða til að nýta þá tjónsmuni sem við eignumst til að lágmarka sóun. Því miður er það ekki alltaf hægt en oft er þó hægt að finna góð nyt fyrir tjónamunina og hefur reynst mikils virði að finna góða samstarfsaðila í þessum efnum.

  • Við höfum verið í samstarfi við Fjölsmiðjurnar í Reykjavík og á Suðurnesjum þar sem tjónamunir ganga í endurnýjun lífdaga og nýtast til kennslu og þjálfunar. Á árinu fóru 13 sendingar til Fjölsmiðjunnar, s.s. hjól, tölvu- og tækjabúnaður, húsgögn, bifreiðar og fleira.
  • Í samvinnu við Húsnæðisfulltrúa flóttafólks aðstoðuðum við 41 fjölskyldu með húsgögn til að koma sér fyrir á nýjum stað.
  • Við ráðstöfum einnig munum til ýmissa góðgerðafélaga sem það vilja þiggja og á árinu fóru frá okkur 16 sendingar til ýmissa félaga.

Förgun ónýtra tjónsmuna

Vel er gætt að því að þeim munum sem ekki eru nýtilegir sé fargað á sem skynsamlegastan hátt. Sjóvá er með starfsmann í hlutastarfi við að fylgja því eftir að koma munum í góð not en jafnframt að þeir munir sem er fargað séu flokkaðir á réttan og ábyrgan máta. Samkvæmt talningu var 380 einingum fargað á árinu 2023, það er allt frá smáhlutum að því sem stærra er. Þar af er um það bil fjórðungur sem fer endurgjaldslaust í endurvinnslu sem járnvara.

Einkunn Reitunar fyrir umhverfisþætti

Í UFS mati Reitunar á umhverfisþáttum fékk Sjóvá einkunnina A3 með 88 stig af 100 mögulegum. Í niðurstöðunum kom fram að áherslur Sjóvár á sviði sjálfbærni endurspegluðust meðal annars í þjónustu- og vöruframboði, þar sem vistfræðileg sjónarmið væru höfð að leiðarljósi. Sérstaklega er bent á áherslu sem félagið hefur lagt á endurnýtingu vegna ökutækjatjóna og að hvetja viðskiptavini til að velja umhverfisvænni leiðir í því skyni að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vegna ytri þátta í starfseminni. Sjá nánar um mat Reitunar hér.