Tvö ný björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar komu til landsins á árinu, skipin Sigurvin og Jóhannes Briem. Þessi tvö skip eru á meðal skipanna þriggja sem Sjóvá styrkti Landsbjörgu um kaupin á, samtals um 142,5 milljónir króna. Þriðja skipið, Þór, kom til landsins árið 2022 og nú eru því öll björgunarskipin þrjú komin til heimahafna. Skipið Þór var afhent í Vestmannaeyjum í október 2022, Sigurvin á Siglufirði í marsmánuði 2023 og Jóhannes Briem í Reykjavík í október 2023. Tekið hefur verið á móti öllum skipunum með mikilli viðhöfn í heimahöfn að viðstöddu fjölmenni.
Nýju skipin stórauka öryggi bæði á sjó og landi. Þau eru með ganghraða allt að 30 sjómílur og búin nútíma tæknibúnaði, hitamyndavél og botnsjá. Þau hafa þegar sannað gildi sitt og er hafin vinna við fjórða skipið, en til stendur að endurnýja allan björgunarskipaflota Landsbjargar, samtals 13 skip.
„Í stuttu máli hafa nýju skipin staðist væntingar okkar og betur en það. Viðbragðstíminn styttist verulega, þau eru að sjálfsögðu búin nýjustu tækni, auk þess að fara miklu betur með áhöfnina þegar gefur á bátinn. Þau björgunarskip sem nú verða tekin úr notkun eru flest að nálgast fertugsaldurinn með tilheyrandi vandræðum við að viðhalda þeim. Enn er þó nokkuð í land með að við höfum náð að tryggja fjármögnun allra skipanna, en við höldum ótrauð áfram og treystum á velvild fyrirtækja í landinu, þar sem Sjóvá reið á vaðið með eftirminnilegum hætti.“
Við hjá Sjóvá erum afar stolt af því að geta stutt við þetta brýna verkefni félaga okkar hjá Landsbjörgu. Við höfum átt afar farsælt samstarf við samtökin um áratuga skeið, bæði sem aðalstyrktaraðili samtakanna og í samvinnu um ýmis forvarnaverkefni, öryggismál og tryggingar. Þetta umfangsmikla og mikilvæga verkefni hefur verið afar ánægjuleg viðbót við það góða samstarf.