Sjálfbærni

Ábyrgar fjárfestingar

Fjárfestingastarfsemi Sjóvár felst í ávöxtun fjármuna félagsins, í samræmi við lög um vátryggingastarfsemi og þá fjárfestingastefnu sem stjórn ákveður.

Fjárfestingarstefna og reglur um eignastýringu voru yfirfarnar á árinu 2023 og uppfærð stefna gefin út í lok árs. Stefnunni og reglunum er ætlað að styðja við og tryggja að fjárfestingar félagsins séu varfærnar og ábyrgar í samræmi við 113. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016.

Einnig að ákvarðanir um þær séu faglegar og samsetning eigna félagsins með þeim hætti að öryggi, gæði, seljanleiki og arðsemi þeirra sé tryggð. Vátryggingafélagi er einungis heimilt að hafa í eignasafni sínu eignir og fjármálagerninga þar sem félagið getur greint, mælt, fylgst með, stjórnað og meðhöndlað og brugðist við áhættu með viðeigandi hætti. Einnig skal staðsetning eigna vera þannig að aðgengi að þeim sé tryggt. Eignir sem notaðar eru til að mæta vátryggingaskuld skulu þar að auki vera í samræmi við eðli og líftíma vátryggingaskuldbindinga.

Reglur og stefna eru í samræmi við lög um vátryggingastarfsemi og afleiddar reglur og reglugerðir sem gilda um fjárfestingastarfsemi vátryggingafélaga hverju sinni. Þær taka mið af gildandi ákvæðum laga, reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla annarra sem innleidd hafa verið hérlendis.

Stefna um ábyrgar fjárfestingar

Í upphafi árs 2023 var sett stefna um ábyrgar fjárfestingar en henni er ætlað að samþætta markmið fjárfestingastefnu og stefnu félagsins um sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Samkvæmt henni er leitast við að draga úr áhættu, skila viðunandi arðsemi á fjárfestingum félagsins til lengri tíma litið og á sama tíma að auka velferð samfélagsins í heild sinni. Með stefnunni er áhersla lögð á að tekið sé mið af umhverfislegum þáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum við fjárfestingaákvarðanir með það að markmiði að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma. Lögð er rík áhersla á að félög, útgefendur og sjóðir sem Sjóvá fjárfestir í fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda um starfsemi þeirra.

Sjóvá mun að jafnaði ekki útiloka fjárfestingarkosti á grundvelli UFS þátta en það kann engu að síður að vera gert ef félög gerast brotleg gegn refsilögum og/eða stunda slæma viðskiptahætti.

Fjárfestingar á árinu 2023

Ávöxtun eignasafnsins árið 2023 var 9,0% en verðbólga yfir árið var 7,7% og raunávöxtun því jákvæð um 1,2%. Í ljósi markaðsaðstæðna verður þetta að teljast gott en mikil ólga var á skulda og hlutabréfamörkuðum á Íslandi á árinu. Þá lækkaði Úrvalsvísitala hlutabréfa um 1,6% á árinu en Ríkisskuldabréfavísitala Kviku hækkaði um 4,5% og Skuldabréfavísitala Kviku um 5,0%.

Fjárfestingatekjur námu 4.800 m. kr. en stærsta framlag til þeirra var af óskráðum hlutabréfum eða 1.266 m. kr. Ávöxtun óskráðra hlutabréfa nam 36,7% á árinu og skýrist fyrst og fremst af sölu á öllum eignarhlut Sjóvár í Kerecis. Danska heilbrigðisfélagið Coloplast keypti allt hlutafé í Kerecis um mitt ár fyrir um 1,3 milljarða Bandaríkjadali, en Sjóvá fékk um 2,4 milljarða króna fyrir hlut sinn í íslenska félaginu.

Afkoman af ríkisskuldabréfum var jákvæð um 1.124 m. kr. eða 6,7%. Sjóvá minnkaði vaxtanæmni skuldabréfasafnsins töluvert á árinu 2022 og hélst hún lág á árinu 2023. Verðtryggingarhlutfall safnins var nokkuð hátt í upphafi árs en lækkaði lítillega á seinni helmingi ársins. Önnur skuldabréf skiluðu 1.239 m. kr. eða 7,5% en sömu stefnu um stuttan líftíma og hátt verðtryggingarhlutfall var fylgt þar.

Afkoman af skráðum hlutabréfum nam 901 m. kr. eða 6,9% sem verður að teljast mjög gott miðað við þróun hlutabréfamarkaða hérlendis á árinu. Skráðu hlutabréfin í eignasafninu sem skiluðu bestu afkomu á árinu, í krónum talið, voru Ölgerðin, Marel og Amaroq Minerals.

Verðbólga reyndist þrálátari en margir áttu von á og endaði árið í 7,7%. Seðlabankinn hélt áfram að hækka vexti til að stemma stigu við verðbólgunni og hækkaði stýrivexti um 3,25 prósentustig, úr 6,0% í 9,25%, á árinu. Nokkur merki eru um að árangur sé að nást í baráttunni við verðbólguna og að þensla sé að minnka hérlendis. Það sést greinilega á tölum um hagvöxt hérlendis en hagvöxtur á fyrsta fjórðungi ársins var 7,0% en einungis 1,1% á þeim þriðja.