Sjálfbærni

Flokkunarkerfi um sjálfbærar fjárfestingar

Árið 2020 samþykkti Evrópusambandið nýjar reglur sem búa til samræmdan ramma eða flokkunarkerfi sem er ætlað að flokka atvinnustarfsemi eftir því hvort hún telst umhverfislega sjálfbær, byggt á viðmiðunum í reglunum. Nýju reglunum er ætlað að hjálpa fjárfestum og fyrirtækjum að taka upplýstari ákvarðanir um fjárfestingar og stuðla að gagnsæi í upplýsingagjöf um sjálfbærnimál.

Þessar reglur hafa nú verið innleiddar hér á landi og gilda því um atvinnustarfsemi á Íslandi. Flokkunarkerfið nær til hluta af starfsemi Sjóvár samkvæmt framseldri reglugerð um loftslagsmál (Climate Delegated Act). Í henni eru sett fram tæknileg viðmið fyrir tvö af sex umhverfismarkmiðum flokkunarreglugerðarinnar; mildun loftslagsbreytinga og aðlögun að loftslagsbreytingum. Sjóvá birtir því í ár í fyrsta skipti upplýsingar sem félaginu ber að birta samkvæmt áðurnefndri reglugerð og verður upplýsingagjöf félagsins í samræmi við þær framseldu reglugerðir sem um hana munu gilda hverju sinni.

Þau félög sem falla undir upplýsingaskylduna eiga að fjalla um:

  1. starfsemi félagsins sem flokkunarkerfið nær til samkvæmt flokkunarkerfinu (e. taxonomy-eligible economic activity), þ.e. ef umræddri starfsemi er lýst í framseldu reglugerðinni um loftslagsmál og hún telst geta stuðlað verulega að einu eða fleiri af sex umhverfismarkmiðum flokkunarreglugerðarinnar, óháð því hvort hún uppfylli tæknileg viðmið umræddrar reglugerðar.
  2. starfsemi félagsins sem fellur að flokkunarkerfinu (e. taxonomy-aligned economic activity), þ.e. starfsemi félagsins sem flokkunarkerfið nær til ef sú starfsemi telst ekki vinna gegn öðrum umhverfismarkmiðum hennar og uppfyllir jafnframt tæknileg viðmið framseldu reglugerðarinnar um loftslagsmál ásamt því að uppfylla lágmarksverndarráðstafanir (e. minimum safeguards) í samræmi við reglugerðina.

Þeir þættir starfsemi Sjóvár sem flokkunarkerfið nær til eru annars vegar skaðatryggingastarfsemi félagsins og hins vegar fjárfestingar félagsins sem tengjast tryggingastarfseminni.

Skaðatryggingastarfsemi

Greining á því hvaða skaðatryggingar Sjóvár flokkunarkerfið nær til byggist á kafla 10.1 í II viðauka framseldrar reglugerðar um loftslagsmál. Þar segir að flokkunarkerfið nái til þess þegar veitt er tryggingaþjónusta í þeim flokkum sem þar eru tilgreindir og fela í sér vernd gagnvart ákveðnum loftslagstengdum hættum, s.s. jarðvegsrofi, gróðureldum, stormi og fárviðri.

Sjóvá býður upp á tryggingar í eftirtöldum flokkum af þeim sem tilgreindir eru í áðurnefndum viðauka:

a) vátryggingar vegna sjúkrakostnaðar,

b) vátryggingar vegna tekjuverndar,

c) atvinnuslysatryggingar,

d) ábyrgðartryggingar vegna ökutækja,

e) aðrar ökutækjatryggingar,

f) sjó-, flug- og farmtryggingar,

g) vátryggingar vegna bruna og annars eignatjóns

Mat á því hvort þessar tryggingar feli í sér vernd fyrir tilgreindum loftslagstengdum hættum var framkvæmt með sérfræðingum Sjóvár og skoðað hvort og hvernig hver trygging um sig mætti umræddum hættum, með því m.a. að fara yfir skilmála hverrar tryggingar.

Hafa ber í huga að eignatjón vegna ákveðinna náttúruhamfara eru bætt af Náttúruhamfaratryggingu Íslands lögum samkvæmt og því eru slík tjón undanskilin í almennum skilmálum félagsins. Við flokkun trygginga samkvæmt framseldri reglugerð um loftslagsmál er þó einnig tekið mið af umfangsminni veðurtengdum atburðum sem rekja má til loftslagsbreytinga, en teljast ekki náttúruhamfarir sem bættar eru af Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Í samræmi við reglugerðina var einnig metið hversu hátt hlutfall trygginga félagsins flokkist þannig að það falli að reglugerðinni. Farið var yfir tæknileg matsviðmið sem skilgreind hafa verið fyrir tryggingastarfsemi og metið hvort trygging stuðli verulega að aðlögun að loftslagsbreytingum. Það var gert með því að taka afstöðu til spurninganna í tæknilegu matsviðmiðunum með sérfræðingum félagsins, spurningum um:

1) forystu við líkanasmíði og verðlagningu loftslagsáhættu

2) vöruhönnun

3) nýjar lausnir í vátryggingavernd

4) samnýtingu gagna

5) hátt þjónustustig eftir hamfaraástand.

Eins var metið með sérfræðingum hvort tryggingin valdi engum verulegum skaða á öðrum umhverfismarkmiðum. Matsviðmiðin eru ítarleg og þarf að uppfylla sértæk skilyrði til að trygging geti talist falla að reglugerðinni.

Tekjur af þeim tryggingum sem reglugerðin nær til voru 83,4% af heildartekjum af tryggingum félagsins á árinu 2023, samkvæmt matinu.

Að svo stöddu var það metið svo að engin trygging Sjóvár yrði flokkuð þannig að hún félli að reglugerðinni.

Haldið verður áfram með þessa vinnu á árinu 2024, ítarlegri gagna aflað til að geta betur lagt mat á umrædda þætti og mælt þá og tækifæri metin samhliða því.

Fjárfestingastarfsemi

Samkvæmt flokkunarreglugerðinni skal vátryggingafélag birta lykilmælikvarða sem eru hlutfall eignasafns sem flokkunarreglugerðin nær til og hlutfall eignasafns sem fellur að flokkunarreglugerðinni.

Þegar metið er hvort og þá að hve miklu leyti fjárfesting nær til flokkunarreglugerðarinnar og að hve miklu leyti hún fellur að henni skal einungis notast við upplýsingar sem birtar hafa verið af viðkomandi fyrirtæki sem fjárfest hefur verið í. Íslensk fyrirtæki sem falla undir upplýsingagjöf flokkunarkerfisins munu í ár birta í fyrsta skipti upplýsingar samkvæmt flokkunarreglugerðinni. Þau hafa því hingað til ekki birt upplýsingar um hvort og/eða að hve miklu leyti starfsemi fyrirtækis nær til flokkunarreglugerðarinnar, og því liggja þær ekki fyrir. Jafnframt hafa íslensk fyrirtæki ekki birt hvort eða að hve miklu leyti starfsemi þeirra fellur að flokkunarreglugerðinni.

Fyrir vikið hefur Sjóvá ekki upplýsingar sem hægt er að byggja á hvað þetta varðar. Þá birti ársreikningaskrá Skattsins yfirlýsingu þessu tengt þann 18. janúar 2024. Þar segir að ársreikningaskrá hafi fallist á að veita fyrirtækjum á fjármálamarkaði takmarkaða undanþágu frá birtingu upplýsinga, að því marki sem ekki séu til staðar viðeigandi og/eða áreiðanlegar upplýsingar. Sjóvá er fyrirtæki á fjármálamarkaði og því á þetta við um félagið.

Íslensk fyrirtæki, sem falla undir flokkunarreglugerðina, skulu þó birta þessar upplýsingar fyrir fjárhagsárið 2023 og verður því hægt að birta hlutfall eignasafns sem fellur að flokkunarreglugerðinni og nær til flokkunarreglugerðarinnar fyrir fjárhagsárið 2024, í næstu árs- og sjálfbærniskýrslu.