Sjálfbærni

Loftslagsbreytingar og -áhætta

Loftslagsvá og aðgerðir til að bregðast við henni eru nú þegar uppspretta áhættu í fjármálakerfinu um allan heim. Loftslagsbreytingar eru alvarleg áhætta fyrir samfélagið, þar á meðal vátryggingafélög, og skaðleg áhrif hnattrænnar hlýnunar á náttúruleg og mannleg kerfi eru nú þegar sýnileg.

Loftslagsbreytingar

Sjóvá vinnur eftir stefnu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð sem og umhverfisstefnu. Félagið leggur sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda. Umhverfisáherslur miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í eigin starfsemi og stuðla að minni losun með forvörnum, fræðslu og ábyrgum lausnum í vöruframboði og þjónustu. Umhverfisstefna og markmiðasetning eru verkfæri til að ná settum markmiðum. 

Áhrif, áhættur og tækifæri

Hætta er á að Sjóvá geti orðið fyrir auknum tjónaþunga eða aukinni tjónatíðni í kjölfars veðurofsa sem rekja má til loftlagloftslagsbreytinga þar sem iðgjöld nægðu ekki til að standa undir tjónakostnaði. Tryggingafélög um allan heim eru farin að finna fyrir aukinni tjónatíðni sem leitt hefur til hækkunar iðgjalda endurtrygginga.

Tækifæri eru í meðferð tjóna og áframhaldandi áherslu á forvarnir til að sporna gegn tjónum. Tjón hafa neikvæð umhverfisáhrif, þau leiða meðal annars af sér mikla sóun og losun gróðurhúsalofttegunda. Forvarnir og fræðsla gegna stóru hlutverki við að minnka líkur á tjónum og aldrei hefur verið mikilvægara en nú að leggja áherslu á þau málefni.

Heildarlosun og kolefnisbinding

Sjóvá tekur ábyrgð á umhverfisáhrifum sínum og þeirri losun sem stafar af starfseminni, bæði í eigin rekstri og í virðiskeðjunni. Bein umhverfisáhrif félagsins eru takmörkuð sökum eðlis viðskiptamódels, en þegar horft er til eignasafns og virðiskeðju tengdri vátryggingastarfsemi félagsins er losun meiri. Félagið leitast við að mæla losun og að hafa jákvæð áhrif á losun í virðiskeðju.

Heildarlosun Sjóvár fyrir árið 2023 nam

174

kolefnisígildistonnum

Losun frá rekstrinum stóð því sem næst í stað milli áranna 2022 og 2023 þrátt fyrir vöxt í starfsemi félagsins, og er þá leiðrétt fyrir losun vegna árshátíðarferðar starfsfólks erlendis á síðasta ári. Losun vegna notkunar jarðefnaeldsneytis dróst saman í takt við fjölgun hreinorkubíla og aukna notkun fjarskoðunarlausnar. Hreinorkubílar eru nú 72% bíla í rekstri hjá Sjóvá.

Sjóvá hefur verið með samning við Kolvið frá 2015 um kolefnisbindingu með skógrækt vegna losunar frá starfseminni. Við höfum einnig keypt kolefniseiningar frá SoGreen sem vinnur að forðun losunar með menntaverkefnum fyrir stúlkur í Afríku og hefst það verkefni á árinu 2024.

Fjölbreyttar aðgerðir til að minnka losun

Unnið verður að því á næstu árum að skoða lausnir til að styðja við markmiðasetningu um samdrátt í losun félagsins sem byggja á vísindalegum grunni. Áhættur tengdar loftslagsbreytingum og mat á áhrifum atburða tengdum loftslagsbreytingum verða metnar með reglubundnum hætti og nýttar til að meta þörf til að breyta vörum þannig að þær svari kröfum viðskiptavina þegar aðstæður og þarfir breytast.

Eins og sagt er frá í kafla um Hringrásarhagkerfið leggjum við áherslu á að minnka sóun þar sem mögulegt er við afgreiðslu tjóna og er unnið að ýmsum verkefnum þar sem stuðla að minni losun. Stafræn þróun og lausnir hafa einnig leitt af sér minni þörf fyrir akstur vegna afgreiðslu af öllum toga. Rafræn samskipti og fjarskoðanir, sem fjallað er um í kaflanum Tjónaþjónusta, fela í sér minni losun vegna aksturs hjá Sjóvá og hjá viðskiptavinum og þjónustuaðilum.

  • Notkun fjarskoðunarlausnarinnar Innsýnar kom í veg fyrir 42.425 km akstur á árinu.
  • 78% tjónstilkynninga bárust okkur rafrænt á árinu 2023, en þær voru 58% 2022.
  • Hlutfall viðskiptavina í rafrænum viðskiptum var 72% í árslok 2023, en var 66% í árslok 2022.
  • 549.000 km akstur sparaðist á árinu með notkun rafrænna undirskrifta, samkvæmt reiknivél hugbúnaðarfyrirtækisins Taktikal, sem er 40% meira en árið á undan.

Peningagreiðsla í stað bílaleigubíls

Viðskiptavinir eiga rétt á bótum á meðan ökutæki er í viðgerð og miðast þær við fjölda eðlilegra viðgerðardaga ökutækis. Geta þeir valið milli tveggja möguleika, annars vegar að fá peningagreiðslu eða bílaleigubíl. Á árinu hækkaði Sjóvá fjárhæð peningagreiðslunnar í þeirri von að fleiri skoðuðu möguleikann að vera bíllaus á meðan viðgerð stæði, enda ekki allir sem þurfa á bíl að halda þann tíma. Greiðslan var hækkuð í maí 2023 úr 4500 kr. á dag í 5.500 kr. Hlutfall þeirra sem völdu peningagreiðsluna hækkaði lítillega milli ára úr 21,2% í 22,4% og bindum við vonir við frekari framgang á nýju ári.

Tækifæri og ógnanir vegna loftslagsbreytinga

Fyrir Sjóvá liggur að greina hvar tækifæri og ógnanir í starfsemi félagsins liggja þegar litið er til áhrifa félagsins á losun gróðurhúsalofttegunda og vegna áhrifa loftslagsbreytinga á viðskiptalíkan félagsins, vörur og viðbrögð við breytingum, hvort heldur sem er til að minnka áhættu eða til vöruþróunar til að mæta breytingum og breyttum þörfum og kröfum viðskiptavina vegna loftslagsbreytinga. Ákveða þarf viðbrögð vegna áhrifa loftslagsbreytinga á vöruþróun sem nefndar voru hér að framan með tilliti til ógna og tækifæra fyrir félagið. 

Virk aðkoma stjórna og stjórnenda

Samkvæmt UFS áhættumati Reitunar sem unnið var á árinu fékk Sjóvá 88 stig af 100 mögulegum fyrir umhverfisþætti og einkunnina A3. Í niðurstöðunum segir að Sjóvá standi vel í flokki um umhverfisþætti og hafi mótað góða umgjörð utan um umhverfisstjórnun, bæði er varðar innri þætti og ytri áhrif vegna starfseminnar. Aðkoma stjórna og stjórnenda með loftslagstengdum málefnum sé virk og aukinn áreiðanleiki sé metinn í umhverfisbókhaldi félagsins frá fyrra ári. Sjá nánar um UFS mat Reitunar hér.

Loftslagsáhætta

Loftslagsáhætta er hættan á neikvæðum fjárhagslegum áhrifum á félagið vegna loftslagsbreytinga eða annarra neikvæðra frávika frá markmiðum félagsins. Félagið er útsett fyrir áhættunni í gegnum eigin starfsemi og gegnum virðiskeðju sína. Áhrif vegna loftslagsbreytinga á félagið eru víðtæk og geta haft áhrif m.a. á markaðsáhættu, lagalega áhættu og hvað mest á vátryggingaáhættu. Félagið er útsett bæði fyrir áhrifum af loftslagsbreytingunum sjálfum og þeim umbreytingum sem krafist er til að stemma stigu við áhrifum loftslagsbreytinga, svo sem lagalegar breytingar, skattlagningar og fleira.

Stjórnkerfi

Stjórnkerfi félagsins er sett upp í samræmi við kröfur Solvency II. Lykilþættir stjórnkerfisins eru áhættustýring, regluvarsla, endurskoðun og starfssvið tryggingastærðfræðings. Solvency II tilskipunin gerir þá kröfu að tryggingafélög tiltaki í stjórnkerfi sínu, áhættustjórnunarkerfi og eigin áhættu- og gjaldþolsmati (ORSA) alla áhættuþætti sem þau standa frammi fyrir til skemmri eða lengri tíma og félagið gæti orðið fyrir, einnig þeirrar áhættu sem ekki eru, eða að fullu, tekin með í útreikningi á gjaldþolskröfu (SCR).

Sem hluti af stjórnkerfi félagsins er starfrækt sjálfbærninefnd og er hún undirnefnd stjórnar félagsins. Nefndin hefur það hlutverk að styðja við og styrkja stöðu félagsins á sviði sjálfbærni og UFS þátta, þ.e. umhverfismála, félagsþátta og stjórnarhátta. Stjórn félagsins skipar fulltrúa í sjálfbærninefnd sem í sitja auk hans forstjóri, fjármálastjóri og sérfræðingar úr hópi starfsmanna. Fulltrúi stjórnar er jafnframt formaður nefndarinnar. Tilgangur nefndarinnar er að aðstoða stjórn og stjórnendur við að stuðla að langtíma árangri í rekstri og sjálfbærni félagsins til framtíðar. Það er gert með því að tryggja að viðeigandi áætlanir og aðgerðir séu fyrir hendi til að stuðla að því að markmið samstæðunnar á sviði sjálfbærni náist.

Stjórn fær með reglubundnum hætti upplýsingar um mat á áhættum og eru þær í formi kynninga á sviðsmyndagreiningum, álagsprófunum, árangri lykilmælikvarða og fleira tengt loftslagsmálum.

Stefna

Sjóvá leggur sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda. Umhverfisáherslur miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í eigin starfsemi og stuðla að minni losun með forvörnum, fræðslu og ábyrgum lausnum í vöruframboði og þjónustu. Umhverfisstefna og markmiðasetning eru verkfæri til að ná settum markmiðum. Félagið hefur sett sér stefnu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð og er markmið stefnunnar að stuðla að samþættingu á sjálfbærni og samfélagsábyrgð í starfseminni, að starfsemin uppfylli kröfur sem til hennar eru gerðar og að Sjóvá sé í fararbroddi á þessu sviði.

Áhættustýring

Mat á áhættum tengdum loftslagsbreytingum eru hluti af áhættustýringarkerfi félagsins. Áhættan er greind, mæld og stýrt í samræmi við áhættustýringarkerfið. Samhæfð áhættustýring er einn af grunnþáttum í stjórnkerfinu og felur í sér sjálfsmat á öllum fyrirsjáanlegum áhættum starfseminnar. Samhæfð áhættustýring er höfð til grundvallar í skipulagi og ákvarðanatöku og hefur verklag verið innleitt til að greina, mæla og draga úr og/eða dreifa áhættum sem steðjað geta að í rekstri með það að markmiði að vernda félög í samstæðu, viðskiptavini og vátryggða.

Þriggja línu líkan hefur verið innleitt með það að markmiði að hjálpa félaginu að ná settum markmiðum, stuðla að sterkum stjórnarháttum og áhættustýringu og tryggja skilvirk samskipti.

Áhættur sem tengjast loftslagsbreytingum eru skilgreindar, metnar og þeim stýrt. Framkvæmdar hafa verið áhættugreiningar með það að markmiði að kortleggja áhættuna sem félagið stendur frammi fyrir, kanna áhrif loftslagbreytinga á starfsemi félagsins og gera sviðsmyndagreiningar til að auka skilning á áhrifum loftslagsbreytinga á félagið. Við mat á áhættu er hvoru tveggja horft til eignasafns og tryggingareksturs. Við greiningu og mat á áhættu leitar Sjóvá til sérfræðinga/vísindamanna til að efla hana. Að auki er horft til sviðsmyndagreininga sem framkvæmdar eru af NGFS og Climate Analytics. Horft er til framtíðaráhrifa loftslagsbreytinga á félagið og er það gert með sviðsmyndagreiningum. Horft er til nútíðar, skamms tíma (5-10 ára) og meðallangs tíma (10-30 ára).

Áhættu, vegna áhrifa loftslagsbreytinga, er skipt í raunlæga áhættu (e. physical risk), sem er skipt í bráða eða langvinna áhættu, og umbreytingaráhættu (e. transition risk).

Raunlæg áhætta

Raunlæg áhætta er sú áhætta sem stafar beint af loftslagsbreytingunum sjálfum. Áhættan stafar af aukinni tíðni og ákefð öfgakenndra veðuratburða, svo sem skógarelda, kjarrelda, hvassviðris og úrkomu, og langvinnra breytinga, svo sem hækkunar hitastigs og sjávarmáls. Helstu áhættuþættir snúa að breytingum á veðurfari og afleiddum áhættum svo sem vegna aukinnar hættu á gróðureldum, en einnig vegna afleiddra áhætta í kjölfar skriðufalla og flóða.

Hætta er á að Sjóvá verði fyrir auknum tjónaþunga eða aukinni tjónatíðni í kjölfar veðurofsa sem rekja má til loftslagsbreytinga þar sem iðgjöld nægðu ekki til að standa undir tjónakostnaði. Áhrifin geta m.a. leitt af sér aukin tjón í skaðatryggingum, svo sem á húseignum, ökutækjum og öðrum eignum, og í persónutryggingum, en veðurfarsbreytingar geta haft áhrif til aukinnar tíðni sjúkdóma, slysa og dauðsfalla.

Endurtryggingar eru keyptar til að draga úr áhættu vegna stærri eða uppsafnaðra tjóna. Nú þegar eru tryggingafélög um allan heim farin að finna fyrir aukinni tjónatíðni og alvarleika tjóna sem hefur leitt til hækkunar iðgjalda endurtrygginga.

Tryggingafélög á Íslandi bera ekki áhættu af völdum náttúruhamfara en Náttúruhamfaratrygging Íslands, sem starfar skv. lögum nr. 55/1992 hefur það hlutverk að vátryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara, þ.e. eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða á Íslandi. Sjóvá innheimtir iðgjöld fyrir hönd stofnunarinnar af brunatryggðum húseignum og lausafé viðskiptavina sinna.

Umbreytingaráhætta

Umbreytingaráhætta er hætta sem kemur til vegna aðgerða sem ætlað er að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Áhættan stafar af pólitískum og efnahagslegum aðgerðum við umskipti yfir í lágkolefnishagkerfi eða viðbrögðum við breyttum lífskjörum á ákveðnum svæðum.

Umbreyting yfir í lágkolefnishagkerfi felur í sér margskonar áhættur fyrir félagið. Áhættan er þó minni til skemmri tíma litið en talin aukast þegar til lengri tíma er litið. Áhættan felur m.a. í sér lagalega áhættu og markaðsáhættu.

Markaðsáhætta:

Hætta er á að loftslagsbreytingar hafi neikvæð áhrif á ávöxtun eignasafns, sé ekki horft til áhrifa loftslagsbreytinga við val á fjárfestingum. Umbreytingaráhætta getur leitt til taps á markaðsvirði og/eða fjárfestingatekjum verðbréfa, bregðist mótaðili ekki við loftslagsbreytingum, sér í lagi fyrirtæki í kolefnisfrekum geirum. Sjóvá hefur hafið vinnu við að reikna kolefnisspor eignasafns síns með aðferðarfræði PCAF (Partnership for Carbon Accounting Financials) með það að markmiði að ná betri yfirsýn yfir óbeina losun félagsins. Nánar er fjallað um fjárfestingar í kaflanum um ábyrgar fjárfestingar.

Lagaleg áhætta:

Hætta er á að fyrirtækið brjóti gegn lögum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum og taki ekki tillit til áhrifa loftslagsbreytinga í starfsemi sinni. Hætta er á málaferlum fyrir að forðast eða lágmarka skaðleg áhrif á loftslag, eða að laga sig ekki að loftslagsbreytingum. Fylgst er náið með lagabreytingum á sviði sjálfbærnimála.