Iðgjöld ársins og tjón ársins

námu 20.831 m.kr. samanborið við 20.633 m.kr. árið 2019, sem er 1,0% hækkun frá fyrra ári.

hækkuðu um 2,0% og voru 14.720 m.kr. en árið 2019 voru þau 14.433 m.kr.*

  • Iðgjöld ársins
  • Tjón ársins

Iðgjöld og tjón

Eigin iðgjöld ársins námu 19.817 m.kr. samanborið við 19.701 m.kr. árið 2019, sem er 0,6% hækkun frá fyrra ári. Eigin tjón ársins hækkuðu á sama tíma um 1,2% og voru 14.223 m.kr. en 14.056 m.kr.* árið 2019. Iðgjöld ársins hækkuðu um 1,0%, úr 20.633 m.kr. í 20.831 m.kr. á meðan að tjón ársins hækkuðu um 2,0%, úr 14.433 m.kr.* í 14.720 m.kr.

Á árinu 2020 felldi Sjóvá í heild sinni niður bifreiðaiðgjöld einstaklinga í maí í kjölfar samdráttar í umferð og fækkunar tjóna. Nam sú niðurfelling 650 m.kr. og kemur til viðbótar þeim 640 m.kr. sem tjónlausir vildarviðskiptavinir okkar fengu greiddar í formi Stofn-endurgreiðslu á árinu, 26. árið í röð.

Tjónahlutfall ársins var 70,7% en það var 70,0%* árið á undan.

*Samanburðarfjárhæðum fyrir árið 2019 hefur verið breytt í samræmi við leiðbeinandi tilmæli FME SÍ nr. 1/2020

Fjárfestingar,ávöxtun og markaðsaðstæður

Afkoma af fjárfestingum var góð og langt umfram væntingar á árinu 2020 og skiluðu allir eignaflokkar utan óskráðra hlutabréfa jákvæðri ávöxtun. Árið fór vel af stað á eignamörkuðum en í lok febrúar þegar fréttir fóru að berast af útbreiðslu Covid tók að halla undan fæti og felldi félagið þá afkomuspá sína úr gildi vegna óvissu gæti haft neikvæð áhrif á afkomu félagsins. Það spilaðist þó úr þeirri áhættu með öðrum hætti en þá var vænst. Fjárfestingatekjur voru 5.274 m.kr. á árinu en voru 3.640 m.kr. árið áður sem þó var óvenju gott. Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu félagsins var 13,2% á árinu.

Aðalfundur félagsins frestaði arðgreiðslu vegna ársins 2019 vegna tilmæla Seðlabankans um að varúðar yrði gætt í ljósi óvissu um heimsfaraldurinn og í nóvember var samþykkt á hluthafafundi að falla frá henni. Góð rekstrarafkoma og þar sem fallið var frá arðgreiðslu vegna ársins 2019 hefur eignasafn félagsins vaxið mikið og námu eignir í stýringu 43,8 ma.kr. í lok ársins 2020.

Seðlabanki Íslands brást við aukinni óvissu í efnahagsmálum með lækkun stýrivaxta úr 3% í upphafi árs í 0,75% í lok þess og hafa stýrivextir aldrei verið lægri. Lágir vextir leiddu til hækkunar á virði skuldabréfa og studdi við allt eignaverð í landinu, ávöxtun ríkisskuldabréfa var 6% á árinu og ávöxtun annarra skuldabréfa 7,6%. Eftir að fyrsta bylgja Covid gekk yfir tók verð hlutabréfa við sér en eftir vel heppnað hlutafjárútboð Icelandair tók verð hlutabréfa að hækka og hækkaði linnulítið til loka árs. Reyndist ávöxtun af safni skráðra hlutabréfa félagsins 34,5% á árinu sem er langt umfram öll söguleg meðaltöl og væntingar, sér í lagi í ljósi víðtækra lokana hagkerfisins vegna Covid.

Landsframleiðslan dróst saman um 8,6% á síðasta ári, einkum vegna þess að útflutningur vöru og þjónustu minnkaði um 30%. Stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, ferðaþjónustan, lagðist að miklu leyti í dvala vegna þess að landið var að mestu lokað vegna sóttvarna. Aðrar útflutningsgreinar urðu sömuleiðis fyrir búsifjum vegna sóttvarna í viðskiptalöndum okkar. Gengi krónunnar lækkaði um 10,7% á árinu vegna verri viðskiptakjara, sem verður að teljast mjög hófstillt í ljósi útflutningssamdráttar. Það skýrist af miklu minni skuldsetningu hagkerfisins í erlendum myntum en áður og að Seðlabanki Íslands ræður nú yfir stórum gjaldeyrisforða sem eykur trúverðugleika íslensku krónunnar. Verðbólga reyndist 3,5% á árinu sem er yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans og skýrist það að miklu leyti af veikingu krónunnar.