EN
  • Mínar síður
Loka valmynd
  • Ársskýrsla 2022
  • Ársreikningur
  • Ánægðir viðskiptavinir
  • Stjórnarhættir
  • Sjálfbærni
  • UFS

    Stjórnarhættir

    Sjóvá er al­hliða vá­trygg­inga­fé­lag á sviði skaða- og líf­trygg­inga. Fé­lag­ið starfar sam­kvæmt lög­um um hluta­fé­lög, um vá­trygg­inga­starf­semi og um vá­trygg­inga­sam­stæð­ur, auk þess sem það er ein­ing tengd al­manna­hags­mun­um. Fé­lag­ið fylg­ir regl­um og við­mið­um um góða stjórn­ar­hætti og hef­ur ein­sett sér að vera fyr­ir­mynd­ar­fyr­ir­tæki í stjórn­ar­hátt­um.

    Yfirlýsing 2022

    Inngangur

    Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Sjóvá) er hlutafélag sem stofnað var 20. júní 2009. Félagið er vátryggingafélag og starfar samkvæmt lögum um hlutafélög nr. 2/1995 , lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016 og lögum um vátryggingasamstæður nr. 60/2017.

    Í samræmi við lög um endurskoðendur nr. 94/2019 eru vátryggingafélög skilgreind sem einingar tengdar almannahagsmunum og er sérstaklega kveðið á um hlutverk endurskoðunarnefnda í slíkum einingum í lögum um ársreikninga nr. 3/2006.

    Sjóvá samstæðan starfar á vátryggingamarkaði og er alhliða vátryggingafélag með starfsemi á Íslandi á sviði skaða- og líftrygginga. Samkvæmt útgefnum ársreikningum var hlutdeild Sjóvár miðað við iðgjöld ársins hjá íslenskum vátryggingafélögum í árslok 2021 um 31% í skaðatryggingum og um 36% í líf- og heilsutryggingum. Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. (Sjóvá líf) er dótturfélag Sjóvár og er allri daglegri starfsemi þess útvistað til móðurfélagsins.

    Starfsemi Sjóvár er fjölbreytt og þjónustan yfirgripsmikil en félagið býður tryggingavernd á öllum sviðum hér á landi. Um 8.600 fyrirtæki og um 82.100 einstaklingar voru í viðskiptum í lok árs 2022. Í árslok 2022 störfuðu 192 starfsmenn hjá Sjóvá í 185 stöðugildum. Sjóvá rekur 11 útibú um landið auk höfuðstöðva í Reykjavík. Þá hefur félagið á að skipa þéttu neti umboðs- og þjónustuaðila víðs vegar um landið og leggur kapp á að þjónusta félagsins sé öllum aðgengileg.

    Innra eftirlit og áhættustýring

    Sjóvá lýtur eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og hefur komið á samhæfðri áhættustýringu sem nær til allra rekstrarþátta félagsins og sett sér áhættustefnu sem lýsir umgjörð áhættustýringar. Áhættustefnan tekur til allra áhættuþátta sem krafist er í lögum um vátryggingastarfsemi og reglugerð um vátryggingastarfsemi. Stefnan var síðast endurnýjuð 7. desember 2022.

    Stjórnkerfi og skipulag félagsins eru skráð í gæðakerfi þess. Leiðbeiningar fyrir starfsmenn félagsins miða að því að hver og einn beri ábyrgð á gæðum vinnu sinnar, þjónustu félagsins og upplýsingaöryggi. Innra eftirlit er innbyggt í verklagsreglur félagsins og eru innri úttektir og áhættugreiningar framkvæmdar reglulega.

    Félagið leggur áherslu á skýra verkaskiptingu og ábyrgð. Uppbygging Sjóvár á eigin starfsemi er í samræmi við þrjár varnarlínur innra eftirlits. Tekið hefur verið saman heildstætt yfirlit um innra eftirlit, áhættukort (e. Assurance map) sem gefur góðar upplýsingar um umfang eftirlits á öllum innri eftirlitsþáttum og gerir mögulegt að sannreyna niðurstöður og meta eftirlitið og umfang þess. Regluleg skýrslugjöf er varðar afkomu einstakra sviða starfseminnar er mikilvægur þáttur innra eftirlits. Mánaðarlegar skýrslur um rekstrarlega afkomu og fjárfestingar, ársfjórðungslegar skýrslur um áhættustýringu, eigið áhættu- og gjaldþolsmat sem framkvæmt er að lágmarki árlega, árleg skýrsla um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og reglubundnar skýrslur til eftirlitsaðila sem og aðrar reglulegar úttektir miða að því að tryggja gagnsæi í starfseminni. Þær auðvelda félaginu einnig að uppgötva og leiðrétta hugsanlegar skekkjur, fylgjast með frávikum og sveiflum í starfseminni og gefa svigrúm til að bregðast við ef áhættuþættir eða breytingar í rekstrarumhverfi gefa tilefni til. Framkvæmdastjórn fundar hið minnsta mánaðarlega með áhættu- og öryggisnefnd, ársfjórðungslega er farið yfir stærstu áhættur og einstakir framkvæmdastjórar eiga að lágmarki árlegan fund með áhættu- og öryggisnefnd um áhættur þeirra ábyrgðarsviðs, fjalla um hvernig stýringu og eftirliti með áhættum er háttað og meta hvort það sé fullnægjandi.

    Starfssvið áhættustjóra, regluvörslu, tryggingastærðfræðings og innri endurskoðanda teljast til lykilstarfssviða samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi og skulu þeir einstaklingar sem þeim sinna uppfylla sérstakar kröfur um hæfi og hæfni.

    Tryggingastærðfræðingur félagsins hefur reglulegt eftirlit með því að iðgjaldaskrár endurspegli raunverulega vátryggingalega áhættu og séu í samræmi við afkomumarkmið. Tjónaskuld og endurtryggingavernd félagsins eru metnar með reglulegum hætti og þess gætt að þær séu í samræmi við þarfir félagsins og skuldbindingar þess. Auk þessa tekur tryggingastærðfræðingur saman árlega skýrslu fyrir stjórn félagsins um verkefni starfssviðsins, niðurstöður þeirra ásamt ábendingum.

    Sjóvá hlaut árið 2014 vottun á upplýsingaöryggi samkvæmt ISO/IEC 27001 staðlinum sem staðfestir að rekstur upplýsingakerfa félagsins sé í samræmi við kröfur staðalsins og var vottunin endurnýjuð í maí 2022.

    Endurskoðun ársreiknings félagsins er í höndum KPMG ehf. sem kosið var á aðalfundi árið 2018 fyrir rekstrarárin 2018-2022. Innri endurskoðun er útvistað til Ernst & Young ehf.

    Hlutverk, framtíðarsýn og vegvísar

    Á árinu 2022 var áfram unnið að settum markmiðum og unnið að því að endurnýja stefnumótun og markmið félagsins til framtíðar. Þau byggja ofan á stefnu sem mörkuð var árið 2013 og á skilgreindu hlutverki, framtíðarsýn og vegvísum Sjóvár sem starfsfólk hefur að leiðarljósi í starfi sínu. Hlutverk Sjóvár er „Við tryggjum verðmætin í þínu lífi“. Framtíðarsýnin er „Sjóvá er tryggingafélag sem þér líður vel hjá“. Vegvísarnir eru leiðbeinandi í öllum ákvörðunum stjórnar og starfsfólks og leggja grunninn að þeirri framtíðarsýn sem unnið er að innan félagsins:

    • Verum á undan
    • Höfum það einfalt
    • Segjum það eins og það er
    • Verum til staðar

    Reglur, stefnur og samfélagsleg ábyrgð

    Stefna samstæðunnar um samfélagslega ábyrgð er sem hér segir:

    „Við hjá Sjóvá viljum starfa í sátt við samfélag og umhverfi. Með því að samþætta sjálfbærni og samfélagslega ábyrga starfsemi stuðlum við að arðsemi og vexti til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélag, viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa.

    Sjóvá leggur sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda.

    Sjóvá leggur áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu og tryggja að þjónustan sé aðgengileg og í takt við þarfir og vilja viðskiptavina. Starfsánægja er mikilvæg forsenda ánægðra viðskiptavina. Félagið vill með góðum starfsaðstæðum tryggja að það sé ávallt samkeppnishæft og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk. Félagið hefur um árabil unnið markvisst að jafnréttismálum og lagt mikið upp úr því að vera í fararbroddi í málaflokknum. Stefna í jafnréttismálum byggir á mannréttindastefnu félagsins. Félagið hefur í heiðri grundvallarmannréttindi eins og þeim er lýst í alþjóðasamningum. Félagslegar áherslur miða að því að tryggja jöfn laun og tækifæri starfsfólks og fjölbreytni í samsetningu stjórnar, stjórnenda og starfsfólks. Á hverju ári eru skilgreindar markvissar aðgerðir sem byggja á mannréttindastefnu félagsins. Sjóvá leggur áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu og að þjónustan sé aðgengileg og í takt við þarfir og vilja viðskiptavina.

    Sjóvá fylgir í hvívetna þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda. Leitast er við að stjórnarhættir séu í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti og þær kröfur sem gerðar eru til félagsins sem er eftirlitsskyldur aðili og skráður í kauphöll. Sjóvá hefur skýra stefnu um að vinna gegn hvers konar spillingu, glæpsamlegri starfsemi og peningaþvætti í öllum viðskiptum félagsins.

    Hagsældaráherslur Sjóvár snúa að hlutverki félagsins sem þjónustufyrirtækis í fremstu röð og trausts vinnuveitanda með heilbrigðan rekstur. Nýsköpun og sífelld þróun vöru og þjónustu Sjóvár stuðla að hagsæld og árangri félagsins. Sjóvá styður við samfélagið og félagslega grósku með forvarnastarfi, styrkjum og markvissu samstarfi.“

    Sjóvá hefur verið aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð frá árinu 2014.

    Sjóvá vinnur stöðugt að því að auka samþættingu áherslna Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við markmið í starfseminni. Tengt er við fimm heimsmarkmiðanna þ.e. markmið 3 um heilsu og vellíðan, 5 um jafnrétti kynjanna, 8 um góða atvinnu og hagvöxt, 12 um ábyrga neyslu og 13 um aðgerðir í loftslagsmálum. Í samræmi við eðli rekstrarins hefur megináhersla verið lögð á forvarnir, jafnréttismál, heilbrigðan rekstur og framþróun í samræmi við markmið 3, 5 og 8. Einnig er leitast við að tryggja ábyrga neyslu og stuðla að umhverfisvænum lausnum samkvæmt markmiði 12 og grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra í samræmi við markmið 13.

    Áherslur Sjóvár í forvörnum tengjast markmiði 3 um heilsu og vellíðan þar sem sett eru fram markmið um helmings fækkun alvarlega slasaðra og dauðsfalla vegna umferðarslysa fyrir árið 2030 og markmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu um að draga verulega úr sóun með forvörnum, minnkun úrgangs, aukinni endurvinnslu og endurnýtingu. Hjá Sjóvá hefur um árabil verið lögð mikil áhersla á að vinna með viðskiptavinum að forvörnum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Á árinu 2022 var haldinn morgunfundur fyrir öll sveitarfélög landsins um forvarnir sveitarfélaga. Heimsóknir í fyrirtæki gátu hafist að nýju og var farið í heimsóknir í allar stærri bílaleigur fyrir sumarið og fjölda annarra fyrirtækja. Fundað var með stórum fyrirtækjum um tjónaþróun og starfsfólk frætt um forvarnir. Gefnir voru út tveir nýir bæklingar, Forvarnir í ferðaþjónustu og Tryggingar björgunarsveita. Sjóvá er með samstarfs- og bakhjarlssamning við Slysavarnafélagið Landsbjörg og á í fjölþættu samstarfi við samtökin, einkum á vettvangi forvarna. Unnið var með þeim að kynningarmálum við komu nýs björgunarskips. Áfram var haldið samstarfi um Safe Travel appið. Unnar voru uppfærslur og endurbætur á appinu og var m.a. bætt inn vindakorti og tilkynningum um ástand á gosstöðvum í samstarfi við Almannavarnir. Alls hafa yfir 100 þúsund manns hlaðið niður appinu. Sjóvá tók þátt í Björgun 2022 með kynningarbás og fræðsluefni, og unnin var skýrsla fyrir Landsbjörg um tjónaþróun síðustu ára hjá björgunarsveitum landsins.

    Í tjónum og tjónavinnslu er leitast við að minnka sóun og stuðla að umhverfisvænum lausnum. Átak var gert í að auka hlutfall framrúðuviðgerða í stað þess að skipta þeim út þegar þess er kostur bæði með vitundarvakningu og aukinni upplýsingagjöf til viðskiptavina og samstarfi við viðgerðaraðila. Leitast er við að minnka sóun sem felur í sér að viðskiptavinir hafa val um að fá bætur og nýta áfram minna skemmda og viðgerðarhæfa muni, fremur en að þeir fari til förgunar og nýir keyptir. Notkun fjarskoðunarlausnarinnar Innsýnar hefur gert félaginu kleift að draga umtalsvert úr akstri á sama tíma og hægt er að veita hraðari og betri þjónustu.

    Sjóvá hefur um árabil lagt áherslu á að tryggja jöfn tækifæri og jafnrétti kynja til ábyrgðar og launa í samræmi við heimsmarkmið 5 og 8. Mannréttindastefna og árleg aðgerðaáætlun eru rammi utan um framkvæmd stefnunnar. Sjóvá hefur frá árinu 2014 haft jafnlaunavottun sem staðfestir að í félaginu er virkt jafnlaunakerfi og hefur launamunur alltaf mælst innan við 2%.

    Félagið hefur sett sér umhverfisstefnu, fylgst er með þróun umhverfisvísa og notkun auðlinda í rekstrinum, og leitast er við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Helmingur bíla í rekstri Sjóvár eru nú raf- og/eða tvinnbílar og eru markmið um að hækka hlutfallið. Sjóvá hefur bundið kolefni sem svarar eigin losun vegna aksturs og flugsamgangna með samningi við Kolvið frá árinu 2015. Styrkur Sjóvá til endurnýjunar björgunarskipaflota Landsbjargar var kynntur við afhendingu fyrsta björgunarskipsins á árinu 2022. Styrkurinn er þáttur í að styðja við heimsmarkmið 12 og að auka viðbragðsáætlanir og viðbúnað vegna vár af völdum náttúruhamfara. Sjóvá birtir nánari upplýsingar og mælikvarða um umhverfismál, samfélag og stjórnarhætti í samræmi við UFS (e. ESG) leiðbeiningar Nasdaq í árs- og samfélagsskýrslu félagsins og á sjova.is. Sjóvá er í samstarfi við Klappir um sjálfbærnibókhald og rýni þess.

    Samþykktir félagsins, starfsreglur stjórnar Sjóvár, starfsreglur endurskoðunarnefndar, starfsreglur tilnefningarnefndar, stefna um persónuvernd, stefna um samfélagslega ábyrgð og siðareglur Sjóvár eru aðgengilegar á sjova.is.

    Stjórn

    Stjórn skal samkvæmt samþykktum félagsins skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum.

    Stjórn Sjóvár telur að ákvæðum leiðbeininga um stjórnarhætti er varða óhæði stjórnarmanna sé fullnægt. Þau Björgólfur, Guðmundur Örn, Hildur og Ingunn eru óháð félaginu, daglegum stjórnendum þess og stórum hluthöfum. Ingi Jóhann er óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess en hann telst háður stórum hluthafa samkvæmt leiðbeiningum um stjórnarhætti þar sem hann er eigandi og stjórnarmaður í félögum sem eiga beina og óbeina eignarhluti yfir 10% í Sjóvá.

    Stjórn Sjóvár fundaði 18 sinnum á árinu 2022.

    Björgólfur Jóhannsson, stjórn­ar­formað­ur, fæddur 28. ágúst 1955, til heimilis á Seltjarnarnesi. Björgólfur var kjörinn í stjórn Sjóvár 15. mars 2019 en steig til hliðar í nóvember 2019 tímabundið og var aftur kjörinn í stjórn 12. mars 2020 og tók þá við stjórnarformennsku. Björgólfur er óháður félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.

    Hildur Árnadóttir, varaformaður, fædd 4. ágúst 1966, til heimilis í Kópavogi. Hildur hefur setið í stjórn Sjóvár frá 15. mars 2019. Hildur er óháð félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.

    Guðmundur Örn Gunnarsson, fæddur 6. janúar 1963, til heimilis í Garðabæ. Guðmundur var fyrst kjörinn í stjórn Sjóvár 12. mars 2020 og er einnig stjórnarformaður dótturfélagsins Sjóvá-Almennra líftrygginga hf. Guðmundur er óháður félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.

    Ingi Jóhann Guðmundsson, fæddur 12. janúar 1969, til heimilis í Garðabæ. Ingi Jóhann hefur setið í stjórn Sjóvár frá 28. júlí 2011. Ingi telst óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess en telst háður stórum hluthafa samkvæmt leiðbeiningum um stjórnarhætti.

    Ingunn Agnes Kro, fædd 27. mars 1982, til heimilis í Reykjavík. Ingunn var fyrst kjörin í stjórn Sjóvár 12. mars 2020. Ingunn er óháð félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.

    Varamenn í stjórn

    Erna Gísladóttir, fædd 5. maí 1968, til heimilis í Garðabæ. Erna sat í stjórn Sjóvár frá 20. júní 2009 lengst af sem formaður stjórnar og síðar sem varamaður frá 15. mars 2019, en hún settist tímabundið aftur í stjórn 19. nóvember 2019 - 12. mars 2020. Erna er óháð félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.

    Garðar Gíslason, fæddur 19. október 1966, til heimilis í Garðabæ. Hann hefur verið varamaður í stjórn Sjóvár frá 30. september 2011. Garðar er óháður félaginu, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum félagsins.

    Stjórn Sjóvá-Almennra líftrygginga hf.

    Stjórn Sjóvá-Almennra líftrygginga hf., dótturfélags Sjóvár, skipa Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður, Hafdís Böðvarsdóttir, viðskiptafræðingur og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögmaður. Varamenn í stjórn eru Elín Þórunn Eiríksdóttir framkvæmdastjóri tjónasviðs og Grétar Dór Sigurðsson, lögmaður. Guðmundur Örn, Hafdís, Heiðrún og Grétar teljast óháð Sjóvá lífi, daglegum stjórnendum og stórum hluthöfum. Stjórn Sjóvár lífs átti 8 fundi á árinu 2022.

    Tilnefningarnefnd

    Hlutverk tilnefningarnefndar er að tilnefna einstaklinga til stjórnarsetu fyrir aðalfund félagsins. Skal nefndin vinna að hagsmunum allra hluthafa og gæta þess að einstaklingar sem tilnefndir eru búi sem heild yfir nægilegri þekkingu og reynslu til að rækja hlutverk sitt. Nefndinni ber einnig að leggja mat á hvort frambjóðendur séu óháðir félaginu eða hluthöfum sem eiga 10% hlut í félaginu eða meira. Tilnefningarnefnd er skipuð þremur nefndarmönnum sem kjörnir eru á aðalfundi. Nefndina skipa Katrín S. Óladóttir, formaður, sem fyrst var kjörin í nefndina á hluthafafundi 26. október 2018, Finnur R. Stefánsson og Sigríður Olgeirsdóttir sem voru kjörin í nefndina 11. mars 2022. Nefndin átti 8 fundi á árinu 2022.

    Endurskoðunarnefnd

    Endurskoðunarnefnd starfar eftir starfsreglum á grundvelli IX. kafla A í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. 108. gr. kveður á um skyldu eininga tengdum almannahagsmunum að starfrækja endurskoðunarnefnd. Endurskoðunarnefnd Sjóvár er skipuð þremur nefndarmönnum sem kosnir eru af stjórn félagsins. Hlutverk nefndarinnar er einkum að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, áhættustýringu og virkni innra eftirlits. Endurskoðunarnefndir Sjóvár og Sjóvár lífs skipa Hildur Árnadóttir formaður sem jafnframt situr í stjórn Sjóvá-Almennra trygginga hf., Anna Birgitta Geirfinnsdóttir og Friðrik Halldórsson. Nefndarmenn eru óháðir Sjóvá og Sjóvá lífi og óháðir endurskoðendum.

    Endurskoðunarnefnd fundar að lágmarki ársfjórðungslega og oftar ef þurfa þykir. Nefndin átti sjö fundi árið 2022.

    Starfskjaranefnd

    Starfskjaranefnd markar starfskjarastefnu sem miðar að því að félagið sé ávallt samkeppnishæft og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk. Starfskjarastefnan nær yfir helstu atriði í starfs- og launakjörum forstjóra, stjórnenda og starfsmanna félagsins og skal fylgja mannréttindastefnu félagsins ásamt því að taka afstöðu til áhrifa launa á áhættutöku og -stýringu félagsins í samráði við endurskoðunarnefnd. Starfskjarastefnu skal endurskoða árlega og skal greiða atkvæði um hana á hverjum aðalfundi. Starfskjaranefnd er skipuð öllum stjórnarmönnum og átti nefndin þrjá fundi á árinu.

    Forstjóri

    Forstjóri Sjóvár er Hermann Björnsson, fæddur 15. febrúar 1963, til heimilis í Reykjavík. Hermann hefur verið forstjóri Sjóvár frá október 2011 og framkvæmdastjóri dótturfélagsins, Sjóvá-Almennra líftrygginga hf. frá því í apríl 2021.

    Framkvæmdastjórn

    Birgir Viðarsson, fæddur 7. september 1981, til heimilis í Reykjavík, er framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar. Birgir var forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar og sérfræðingur í endurtryggingum frá árinu 2017-2022 og starfaði áður í áhættustýringu frá árinu 2011.

    Elín Þórunn Eiríksdóttir, fædd 15. desember 1967, til heimilis í Hafnarfirði, er framkvæmdastjóri tjónaþjónustu. Hún var áður framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar Sjóvár frá 2012 og síðar viðskiptaþróunar og rekstrar og þróunar.

    Sigríður Vala Halldórsdóttir, fædd 24. apríl 1983, til heimilis í Garðabæ, er framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni en hún tók við því starfi í apríl 2021. Sigríður Vala var forstöðumaður hagdeildar Sjóvár árin 2016-2021 ásamt því að sitja í fjárfestinganefnd félagsins.

    Svali H. Björgvinsson, fæddur 24. maí 1967, til heimilis á Seltjarnarnesi, er framkvæmdastjóri markaðsmála og viðskiptaþróunar. Hann var forstöðumaður stefnumótunar og viðskiptaþróunar Sjóvá frá árinu 2018-2022.

    Niðurlag

    Stjórnarháttayfirlýsing þessi hefur verið sett saman af stjórn Sjóvár eftir bestu vitund. Henni er ætlað að veita greinargóðar upplýsingar um stjórnarhætti félagsins til viðskiptavina, hluthafa, eftirlitsaðila og annarra hlutaðeigandi.

    Staðfest af stjórn Sjóvá-Almennra trygginga hf. 19. janúar 2023

    Þú ert hér:

    1. Íslenska
    2. Um okkur
    3. Fjárfestar
    4. Ársskýrsla 2022
    5. Stjórnarhættir
    Sjóvá
    • Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Kt. 650909-1270
    • Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. Kt. 680568-2789
    • Kringlunni 5, 103 Reykjavík
    Hafðu samband
    Þjónustusími
    440 2000
    Tjónavakt
    440 2424
    Netfang
    sjova@sjova.is
    Vegaaðstoð
    440 2222
    Lagalegur fyrirvari
    Opnunartímar
    Kringlan
    Mán - Fim 9:00 - 16:00
    Fös 9:00 – 15:00
    Útibú
    Alla virka daga 11:00 – 15:00
    • Vottanir Sjóvá
    Hafðu samband Smelltu hér
    Þjónustusími
    440 2000
    94734A73-7B6C-480E-BF65-F0BF47918314Created with sketchtool.
    Netspjall
    Skilaboð
    Ábending
    Smelltu hér
    Vinsælar leitir
    Viðurkennd verkstæði Heimilistrygging Tilkynna tjón English

    Fá tilboð í tryggingar

    Engin skuldbinding

    Tilkynna tjón

    Fljótlegt og einfalt

    Hafðu samband

    Kringlunni 5 - 103 Reykjavík
    Opnunartími útibúa 9:00 - 16:00

    Þjónustusími: 440 2000

    Tjónavakt: 440 2424

    Vegaaðstoð: 440 2222

    Netfang: sjova@sjova.is
    Fax: 440 2020

    Gagnvirkar leiðir til að hafa samband
    Opna netspjall Ábendingar, kvartanir & hrós
    Mitt Sjóvá

    Á Mínu Sjóvá getur þú skoðað yfirlit yfir tryggingarnar þínar, tilkynnt tjón og margt fleira

    Opna Mitt Sjóvá
    • Facebook
    • Linkedin
    • Instagram

    Hvort viltu einstaklings- eða fyrirtækjatryggingar?



    Fáðu tilboð í tryggingarnar þínar og komdu í hóp ánægðra viðskiptavina Sjóvá

    Óska eftir tilboði

    Til að halda áfram þarftu rafræn skilríki eða að stofna aðgang að Mínu Sjóvá.
    Ertu nú þegar í viðskiptum við okkur?

    Smelltu þá hér til að tala við næsta lausa þjónustufulltrúa

    Fáðu tilboð í tryggingarnar þínar og komdu í hóp ánægðra viðskiptavina Sjóvá

    Hefja tilboðsferli

    Til að halda áfram þarftu rafræn skilríki
    Ekki með rafræn skilríki eða nú þegar í viðskiptum við okkur?

    Smelltu þá hér til að tala við næsta lausa þjónustufulltrúa