Þjónusta

Tjónaþjónusta

Við hjá Sjóvá tökum ábyrgð okkar sem bakhjarl alvarlega og það reynir á það hlutverk okkar þegar viðskiptavinir verða fyrir tjóni. Enginn vill lenda í tjóni og það getur verið erfið lífsreynsla, eftir því hvert eðli tjónsins er. Þess vegna skiptir öllu máli að upplifun fólks af þjónustunni sem það fær þegar það lendir í tjóni sé eins góð og mögulegt er. Öll þjónusta okkar á að endurspegla að við erum sannarlega til staðar fyrir þá á slíkum stundum.

Við erum á vaktinni allan sólarhringinn svo viðskiptavinir geta haft samband við tjónavakt Sjóvár hvenær sem þeir þurfa á okkur að halda. Við vitum líka að snögg og fumlaus viðbrögð, hlýlegt viðmót og fagleg vinnubrögð skipta hér sköpum. Þannig getur það haft mikil áhrif á umfang sumra eignatjóna ef gripið er til réttra ráðstafana strax. Við leiðbeinum fólki í slíkum aðstæðum í gegnum vaktsíma, með því að mæta á staðinn eða í gegnum fjarskoðunarlausnina Innsýn, þar sem starfsmaður okkar getur skoðað aðstæður í gegnum myndavélina í síma viðskiptavinar. Það er öflugur hópur sérfræðinga sem kemur að tjónaþjónustunni, starfsfólk sem hefur bæði víðtæka menntun og fjölbreytta reynslu. Að auki er notast við aðkeypta sérfræðiaðstoð þegar þörf er á.

Rúmlega

39.000

tjón voru tilkynnt til okkar árið 2023. Það eru 107 tjón á hverjum degi ársins.

Rafræn skráning tjóna

Viðskiptavinir kjósa í vaxandi mæli að tilkynna tjón sín sjálfir með rafrænum hætti enda eru kostir þess margþættir. Viðskiptavinir geta gengið frá tilkynningunni hvenær og hvar sem þeim hentar og komið upplýsingum til okkar með hröðum og öruggum hætti. Upplýsingarnar berast okkur þá beint á vinnuborð sem heldur utan um öll tjón og er vaktað af starfsfólki víðs vegar um landið sem gerir okkur kleift að afgreiða mörg þau tjón sem tilkynnt eru með þessum hætti mun hraðar en annars. Fyrir vikið höfum við lagt mikla áherslu á að einfalda ferlið og þróa stöðugt rafrænar tjónstilkynningar.

Hlutfall rafrænna tjónstilkynninga var 78% af öllum tilkynningunum sem okkur bárust frá viðskiptavinum á árinu 2023. Þetta hlutfall hefur aukist gríðarlega undanfarin ár, með markvissu átaki og aðgerðum sem bætt hafa tilkynningarferli til muna og gert það notendavænna.

* Hlutfall tjóna sem tilkynnt voru rafrænt af viðskiptavinum af öllum tjónum sem tilkynnt voru á árinu

Einn af ótvíræðum kostum þess að tilkynna tjón á Sjóvá.is er að viðskiptavinurinn þarf ekki að gera sér ferð í útibú með tjónstilkynninguna. Þar með getur sparast mikill akstur, sem er bæði kostur fyrir viðskiptavininn sjálfan og umhverfið.

Við greiddum fyrir viðgerðir á tæplega

15.000

ökutækjum á árinu

Við greiddum fyrir yfir

960

læknisheimsóknir fyrir hunda og ketti á árinu

Fjarskoðun á tjónum

Á síðustu árum höfum við notað einfalda fjarskoðunarlausn, sem við köllum Innsýn, til að skoða tjón á vettvangi í gegnum snjalltæki viðskiptavinar. Líkt og með aðrar stafrænar lausnir er ávinningurinn af þessari leið margþættur. Þetta gerir viðskiptavinum kleift að koma réttum upplýsingum um umfang og aðstæður á vettvangi tjóns samstundis til okkar til yfirferðar og tjónamats. Fyrir vikið getum við oft klárað uppgjör tjóna mun hraðar en annars væri. Um leið drögum við mjög úr kolefnisspori okkar með minni akstri tjónamatsmanna. Viðskiptavinir okkar hafa tekið þessari lausn vel og eru ánægðir með þá hröðu og skilvirku þjónustu sem hún gerir mögulega.

800 rafrænar tjónaskoðanir fóru fram á árinu. Með þeim sparaðist um

42.000 kílómetra

akstur tjónamatsmanna.

Að auki sparast töluverður akstur viðskiptavina með því að nota Innsýn, því oft hefur fólk þurft að gera sér ferð til og frá tjónsstað til að hitta þá. Þrátt fyrir þetta eru tjónamatsmenn okkar töluvert á ferðinni að skoða tjón hjá viðskiptavinum og verkstæðum, enda tjónin ekki alltaf þess eðlis að fjarskoðun henti. Til að sporna við umhverfisspori okkar við slíkar ferðir höfðum við sett okkur markmið um að rafvæða bílaflota tjónamatsmanna og náðist að klára það verkefni á árinu 2023.

Sjálfbærni í tjónaþjónustu

Við leggjum mikið kapp á að draga úr umhverfisáhrifum og lágmarka sóun í allri tjónaþjónustu , enda liggja ein helstu tækifæri okkar í sjálfbærni í úrvinnslu tjóna. Eins og dæmin fyrir ofan sýna styðja verkefni sem draga úr umhverfisspori okkar einnig oftar en ekki við það markmið okkar að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu, og því til mikils að vinna. Nánar má lesa um sjálfbærniáherslur í tjónaþjónustu okkar í köflum um Hringrásarhagkerfið og Loftslagsbreytingar og -áhættu.