Ársskýrsla 2024

Ávarp for­stjóra og stjórn­ar­for­manns

Rekstrarniðurstaða ársins 2024 endurspeglar afar sterkan grunnrekstur félagsins. Rekstrarumhverfið var krefjandi á árinu, einkum vegna óvenju margra brunatjóna. Rekstur vátryggingastarfseminnar einkenndist af undirliggjandi hagfelldri tjónaþróun, framþróun á þjónustuleiðum og áframhaldandi áherslum á framúrskarandi þjónustu. Ávöxtun fjárfestingareigna á árinu var einnig góð og skilaði rekstur félagsins mjög góðri niðurstöðu og samsettu hlutfalli á árinu miðað við aðstæður.

Sterkur grunnrekstur

Hagnaður ársins nam 4.241 m.kr. og arðsemi eiginfjár var 17,5%. Tekjur af vátryggingasamningum námu 33.598 m.kr. og jukust um 7,4% á milli ára. Kostnaður af vátryggingasamningum nam 31.720 m.kr. á árinu 2024 og jókst um 7,3% á milli ára. Afkoma af vátryggingarekstri fyrir skatta nam á árinu 1.283 m.kr. samanborið við 1.695 m.kr. árið áður. Samsett hlutfall var 96,2% á árinu 2024 en var 94,6% árið áður. Tekjuvöxtur nam 7,4% sem var í takt við áætlanir en minni en síðustu ár en hafa verður í huga að markaðshlutdeild hefur vaxið mikið undanfarin ár. Tjón ársins hækkuðu um 7,2% milli ára, námu 25.105 m.kr. á árinu 2024 samanborið við 23.426 m.kr. á árinu 2023. Tjónahlutfall ársins var 74,7% samanborið við 74,9% árið á undan. Tjónaþróun er í takt við áætlanir en stórtjón lita afkomu ársins líkt og fyrra árs. Jákvæð þróun í afkomu af ökutækjatryggingum vegur upp á móti verri afkomu í eignatjónum þannig að tjónahlutfall stendur nánast í stað á milli ára.

Sex stærri brunatjón urðu hjá viðskiptavinum okkar á árinu 2024, þar af urðu fjögur á öðrum fjórðungi. Eðli málsins samkvæmt höfðu þau mikil áhrif á afkomu þess fjórðungs en undirliggjandi rekstur er mjög sterkur og mildaði það áhrifin. Fimm stærri brunatjón komu til á árinu 2023, sem líkt og á árinu 2024 er mun meira en reikna má með í meðalári, og hafa þau haft töluverð áhrif á afkomu félagsins undanfarin tvö ár. Tvö brunatjón virkjuðu endurtryggingavernd á hvoru ári um sig, en þau vigtuðu 4,5% í samsettu hlutfalli á árinu 2024 og 2,5% á árinu 2023 en það ár var þátttaka endurtryggjenda óvenju mikil þar sem eitt brunatjónanna var að fullu endurtryggt. Jákvæð þróun varð í afkomu af ökutækjatryggingum og vegur það upp á móti auknum tjónaþunga í eignatjónum.

Kostnaðarhlutfall þróaðist í takt við áætlanir og áherslur félagsins á aðhald í kostnaði án þess að það bitni á mikilvægri framþróun. Áfram er unnið að því að auka skilvirkni með uppbyggingu tækniinnviða til að styðja við hraða afgreiðslu og hátt þjónustustig. Fjöldi starfsmanna eykst lítillega milli ára.

Afkoma af fjárfestingastarfsemi var mjög góð í ljósi erfiðra eignamarkaða langt framan af ári. Hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðir tóku við sér á haustmánuðum með lækkandi verðbólgu og væntingum um að vaxtalækkunarferli gæti hafist sem svo varð raunin. Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta nam 3.435 m.kr. og var ávöxtun fjárfestingaeigna í stýringu 9,4% á árinu. Fjárfestingatekjur námu 5.474 m.kr. á árinu 2024. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri afkomu fyrir utan óskráð hlutabréf þar sem stærsta einstaka breytingin var á virði eignarhlutar í Controlant sem var færður niður um 77% á árinu eða um 675 m.kr.

Allt frá skráningu félagsins á markað hefur það verið stefna félagsins að Sjóvá sé arðgreiðslufélag. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður sem nemur kr. 2,94 á hlut fyrir rekstrarárið 2024 eða um 3.400 m.kr. Arðgreiðslustefna félagsins miðar við að greiða að lágmarki 50% af hagnaði hvers árs til hluthafa í formi arðs, að því gefnu að gjaldþol sé innan gjaldþolsviðmiða stjórnar sem er á bilinu 1,4-1,7. Gjaldþol eftir fyrirhugaða arðgreiðslu er 1,42. Fjárhagslegur styrkur félagsins er mikill líkt og ársreikningur félagsins sýnir. Eiginfjárhlutfall eftir fyrirhugaða arðgreiðslu er 30,1% og fjárhagsstaða félagsins er traust og félagið eftir sem áður fært um að standa þétt við bakið á viðskiptavinum og mæta ófyrirséðum áföllum í rekstri.

Í árslok 2024 voru hluthafar 1.105 en þeir voru 1.146 í ársbyrjun og fækkaði þeim því um 41 á árinu. Eignarhald er dreift og eru 51,3% hluta í eigu lífeyrissjóða, 36,6% í eigu einstaklinga og fyrirtækja, 6,0% í eigu innlendra verðbréfasjóða, 4,4% í eigu erlendra verðbréfasjóða og 1,7% í
eigu fjármálafyrirtækja.

Forvarnir í forgrunni

Á árinu 2024 var líkt og áður unnið að fjölbreyttum forvarnaverkefnum og um að ræða forvarnir sem ætlað var að koma í veg fyrir slys á fólki og tjón á eignum, stórum sem smáum. Félagið hefur einsett sér að vera leiðandi í forvarnarstarfi með það að markmiði að takmarka áhættu og tjón og stuðla þannig að betra og öruggara samfélagi. Öflugt forvarnastarf er stór þáttur í að sinna þessu hlutverki því með því að nýta þekkingu okkar og reynslu til að minnka líkur á tjónum.

Tíðni alvarlegra brunatjóna hefur farið vaxandi hér á landi líkt og erlendis og hefur félagið gripið til aðgerða, og aukið fræðslu og forvarnir gegn brunatjónum. Í nóvember var haldinn morgunfundur undir yfirskriftinni „Brunar í Evrópu og á Íslandi, hvað er til ráða?“, í kjölfar aukinnar tíðni alvarlegra brunatjóna á bygginga- og framkvæmdasvæðum. Markmið fundarins var að vekja athygli á þeirri þróun og virkja viðeigandi aðila til frekara samtals um hvað megi betur fara og bæta forvarnir svo hægt sé að lágmarka og/eða koma í veg fyrir brunatjón. Aukið umfang áhættu- og þjónustuskoðana bæði á fyrirtækja- og einstaklingsmarkaði gera okkur kleift að styðja viðskiptavini í eigin forvörnum með því að miðla sérþekkingu okkar á þessum brýnu málefnum.

Sjóvá er í góðu samstarfi við Samgöngustofu um forvarnarverkefnið „Ekki taka skjáhættuna“ sem fór af stað á árinu 2024 og miðar að því að draga úr símnotkun við akstur. Erlendar rannsóknir sýna að allt að 20% umferðaslysa megi rekja beint til notkunar á farsímum við akstur og því um afar mikilvæg forvarnarskilaboð að ræða.

Sjóvá hefur verið í afar gjöfulu samstarfi sem aðalstyrktaraðili Landsbjargar frá árinu 1999 eða í 25 ár. Samstarfið hefur verið okkur mikilvægt og árangursríkt. Fyrir utan fjárhagslega styrki hefur samstarf okkar lotið að fjölbreyttum forvörnum, vátryggingavernd félagsmanna og þeirra verðmæta tækjabúnaðar og nú síðast að löngu tímabærri endurnýjun björgunarskipaflotans. Styrkur Sjóvár til endurnýjunar björgunarskipaflotans er stærsti einstaki styrkur sem veittur hefur verið til leitar- og björgunarstarfa á Íslandi og tryggir nú þegar bætt öryggi sjófarenda því nýju björgunarskipin hafa bætt verulega viðbragðstíma á hafinu í kringum Ísland. Við erum afar stolt af því að hafa stutt við bakið á þessu öfluga félagi eins lengi og raun ber
vitni og hlökkum til að halda þessu góða samstarfi áfram.

Tryggingar eru okkar fag

Áframhaldandi breytingar hafa orðið á íslenskum tryggingamarkaði með sameiningu og/eða samstarfi banka og tryggingafélaga. Í þessu umhverfi hefur Sjóvá ákveðið að marka sér sérstöðu með að halda skýrri áherslu á tryggingar, tjónaþjónustu og forvarnir. Með því að efla enn frekar sérþekkingu starfsfólks á þeim sviðum getur félagið haldið áfram að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og ráðgjöf hverju sinni, með því að greina, skilja og mæta þörfum þeirra. Við kappkostum að vera í virku samtali við viðskiptavini okkar því þannig höfum við góða yfirsýn yfir aðstæður þeirra og eins fylgjumst við vel með þróun samfélagsins sem og hagkerfisins og erum tilbúin að bregðast við breytingum sem áhrif hafa á starfsemina. Þannig viljum við halda áfram að stuðla að ánægju viðskiptavina okkar og tryggð.

Sjóvá fagnaði á árinu 30 ára afmæli Stofns, sem er vildar- og tryggðarkerfi félagsins. Stofn er með þekktari vildarkerfum landsins og er ein helsta aðgreining okkar á markaði. Við lítum á það sem okkar styrkleika að umbuna tjónleysi og skilvísi í formi endurgreiðslna til okkar viðskiptavina og nema greiðslur til tjónlausra Stofn félaga um 11 milljörðum króna yfir þetta 30 ára tímabil. Fjölskyldur í Stofni hjá Sjóvá eru nú 42.900. Þá fengu rúmlega 32 þúsund tjónlausir viðskiptavinir okkar samtals 966 milljónir króna með Stofn endurgreiðslu á árinu 2024.

Það er skýrt markmið okkar að vera þjónustufyrirtæki í fremstu röð og því einkar ánægjulegt að uppskera efsta sæti tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni á árinu 2024, áttunda árið í röð. Við fengum jafnframt Gullmerki ánægjuvogarinnar þar sem mikill og marktækur munur var á okkur og á næsta tryggingafélagi. Engu fyrirtæki á vátryggingamarkaði hefur áður tekist að halda fyrsta sætinu í ánægjuvoginni óslitið átta ár í röð. Við lítum svo á að þessi árangur byggi á sterkum mannauði og menningu, markvissum aðgerðum og þjónustuáherslum þar sem sífellt er unnið að því að bæta þjónustuna og styðja við gæði og skilvirkni í samskiptum við viðskiptavini. Sem fyrr mældist Sjóvá fyrsta val á tryggingamarkaði og með tryggustu viðskiptavinina skv. könnun Prósents í apríl 2024. Við erum afar stolt af þessum árangri.

Félagið hefur áfram unnið að því að styrkja útibúanet sitt og stafrænar þjónustuleiðir, með það að markmiði að veita enn betri þjónustu um land allt og samræma betur ráðgjöf. Sjóvá rekur 12 útibú um landið auk höfuðstöðvanna í Reykjavík og 4 umboðs- og þjónustuaðilar eru einnig starfandi á landsbyggðinni. Sífelld þróun stafrænna lausna og þjónustuleiða, einföldun ferla og úrbætur í tjónavinnslu ýta undir hraða svörun og skilvirkni. Það skilar sér í hærra þjónustustigi og aukinni ánægju.

Á árinu 2024 studdi félagið áfram við Grindvíkinga sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín, með því að endurgreiða þeim sem enn voru að greiða af húseignum í bænum iðgjöld bruna- og fasteignatrygginga.

Góðar fréttir og viðurkenningar

Sjóvá fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki VR og Fræðslufyrirtæki VR árið 2024, í könnun sem VR lætur gera árlega. Um er að ræða stærstu vinnumarkaðskönnun sem framkvæmd er á landsvísu og fá 15 efstu fyrirtæki í sínum stærðarflokkinn viðurkenninguna Fyrirmyndarfyrirtæki VR. Sjóvá hefur flest undanfarin ár verið á meðal 5 efstu fyrirtækja í flokki stórra fyrirtækja. Við erum afar ánægð með þessar góðu niðurstöður og þakklát fyrir að starfsfólk sé jafn ánægt og stolt af því að starfa hjá Sjóvá eins og raun ber vitni.

Fræðslufyrirtæki VR er ný viðurkenning sem veitt var í fyrsta sinn árið 2024 og var veitt einu fyrirtæki í hverjum stærðarflokki sem þykir skara fram úr í starfsþróun og eflingu símenntunar. Mikil áhersla hefur verið lögð á að hafa fjölbreytt  fræðslustarf og þekkingarmiðlun hjá Sjóvá og er þessi viðurkenning okkur því afar mikilvæg. Það er trú okkar að ánægður og öflugur mannauður er hornsteinn góðrar þjónustu og ánægju viðskiptavina.

Sjóvá hlaut á árinu viðurkenningu FKA og Jafnvægisvogarinnar sem veitt er þeim fyrirtækjum sem hafa skuldbundið sig til að hafa jöfn kynjahlutföll í stjórnunarstöðum innan sinna fyrirtækja. Sjóvá hlaut einnig viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum sem veitt er af Stjórnvísi, Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi, og byggir á úttekt á stjórnarháttum meðal annars á grundvelli leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja.

Það er ánægjulegt að segja frá því að á árinu var Sjóvá efst tryggingarfélaga í Sjálfbærniásnum en það var í fyrsta sinn sem þessi nýja viðurkenning var veitt. Sjálfbærniásinn er nýr samræmdur mælikvarði sem mælir viðhorf íslenskra neytenda til frammistöðu fyrirtækja og stofnana í sjálfbærni. 

Reitun framkvæmdi í sumar UFS sjálfbærnimat á Sjóvá sem fékk einkunnina B1 og 80 stig af 100 mögulegum. Félagið hækkaði um tvö stig milli ára og fer upp um flokk úr B2 í B1. Það telst góð einkunn og er vel yfir meðaltali þeirra félaga sem Reitun hafði metið á Íslandi sem stóð í 71 þegar matið var framkvæmt. Matið gerir grein fyrir hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum.

Það er ánægjulegt að fá þessar viðurkenningar og mat sem að ofan greinir enda endurspegla þær árangur okkar í þeim málum sem snúa að sjálfbærniþáttum í rekstrinum þar sem við höfum kappkostað að sinna sjálfbærnimálum af kostgæfni. Á árinu var áfram unnið að því að uppfylla kröfur og eftir atvikum undirbúa gildistöku löggjafar og tilskipana á sviði sjálfbærni frá Evrópusambandinu, svo sem reglugerðar um flokkunarkerfi fyrir sjálfbæran rekstur fyrirtækja, EU taxonomy og CSRD reglur um form og efni sjálfbærniupplýsinga fyrirtækja og fjárfesta. Ítruð var mikilvægisgreining sjálfbærniþátta hjá Sjóvá, einnig með hliðsjón af nýrri stefnu félagsins sem mótuð var á árinu. Með slíkri greiningu er leitast við að afmarka hvaða sjálfbærniþættir hafa mesta þýðingu fyrir Sjóvá og hagaðila þess og ættu þar af leiðandi að vera í forgrunni við ófjárhagslega upplýsingagjöf félagsins.

Tímamót

Í byrjun apríl voru 10 ár frá skráningu Sjóvár á aðallista kauphallarinnar. Frá skráningu hefur Sjóvá orðið að stærsta vátryggingafélagi landsins, skilað jákvæðri afkomu af vátryggingasamningum á hverju ári og ánægja viðskiptavina hefur aukist. Saga okkar hefur sýnt að við höfum staðið undir okkar höfuðáherslu um að vera öflugt arðgreiðslufélag sem byggir á öguðum grunnrekstri, þar sem vátryggingar eru okkar fag. Þá hefur félagið reynst afar arðbært fyrir eigendur, með hagfelldri þróun hlutabréfaverðs félagsins ásamt reglulegum arðgreiðslum til hluthafa.

Í september sl. var gengið frá kaupréttarsamningum við starfsfólk félagsins í samræmi við samþykkta kaupréttaráætlun, auk viðauka sem samþykktur var í október og lýtur að arðsleiðréttingum. Kaupréttur samkvæmt áætluninni nær til allra fastráðinna starfsmanna Sjóvár og er markmið áætlunarinnar að samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímahagsmuni félagsins og hluthafa þess.

Á árinu 2025 munum við hér eftir sem hingað til leggja áherslu á arðbæran og ábyrgan vátryggingarekstur.

Við þökkum starfsmönnum félagsins fyrir þeirra góðu störf á árinu 2024. Einn lykill að árangri félagsins felst í sterkum og samheldnum hópi sem hefur skýr markmið og hefur sýnt eftirtektarverðan árangur. Hluthöfum þökkum við traustið og viðskiptavinum tryggð við félagið og samfylgdina á árinu 2024.

Hermann Björnssonforstjóri

Björgólfur JóhannssonStjórnarformaður