Ársskýrsla 2024

Fjárfestingar, ávöxtun og markaðsaðstæður

Ávöxtun eignasafnsins árið 2024 var 9,4% en verðbólga yfir árið var 4,8% og raunávöxtun því jákvæð um 4,4%. Það er í samræmi við væntingar okkar í upphafi árs en er ánægjulegt í ljósi erfiðra eignamarkaða langt framan af ári bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði.

Markaðir tóku við sér á haustmánuðum með lækkandi verðbólgu og væntingum um að vaxtalækkunarferli gæti hafist sem svo varð raunin. Úrvalsvísitala hlutabréfa, að teknu tilliti til arðgreiðslna, hækkaði um 18,8% á árinu, Ríkisskuldabréfavísitala Kviku um 7,7% og Skuldabréfavísitala Kviku um 9,2%.

Fjárfestingatekjur námu 5.474 m.kr. en stærsta framlag til þeirra var af skráðum hlutabréfum eða 2.584 m. kr.  Ávöxtun skráðra hlutabréfa nam 16,7% á árinu, sem er í takt við þróun hlutabréfamarkaða hérlendis á árinu. Skráðu hlutabréfin í eignasafninu sem skiluðu bestu afkomu á árinu, í krónum talið, voru Amaroq Minerals, Marel og Kaldalón.

Afkoman af ríkisskuldabréfum var jákvæð um 1.341 m.kr. eða 7,8%. Vaxtanæmni skuldabréfasafnsins hefur verið haldið nokkuð lágu síðustu ár og var ekki breyting þar á á árinu 2024. Verðtryggingarhlutfall safnsins tók ekki miklum breytingum á árinu en það lækkaði lítillega á seinni helmingi ársins. Önnur skuldabréf skiluðu 1.621 m.kr. eða 8,9% en sömu stefnu um stuttan líftíma og hátt verðtryggingarhlutfall var fylgt þar.

Afkoman af óskráðum hlutabréfum var neikvæð um 321 m.kr. eða -10,1%. Stærsta breytingin í óskráðum hlutabréfum var á virði eignarhlutar í Controlant sem var færður niður um 77% á árinu eða um 675 m.kr. Þá voru eignarhlutir í Loðnuvinnslunni og Origo færðir upp um samtals 340 m.kr.

Árið 2024 var ansi viðburðaríkt með tilliti til verðbréfamarkaða hérlendis. Kaupum JBT á Marel var lokið á árinu, verðbólga hélt áfram að hjaðna og vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst í október. Ríkisstjórninni var slitið og í kjölfarið var boðað til Alþingiskosninga. Verðbólga hefur reynst þrálátari en margir áttu von á og endaði árið í 4,8%. Seðlabankinn lækkaði þó stýrivexti um samtals 0,75% á árinu en hélt raunvaxtaaðhaldinu áfram nokkuð þéttu. Ljóst er að þensla í hagkerfinu hefur minnkað töluvert frá því sem var en spár gera ráð fyrir að hagvöxtur hafi verið neikvæður á árinu 2024.