Sjálfbærni

Loftslagsbreytingar

Sjóvá leggur sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda.

Umhverfisáherslur miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í eigin starfsemi og stuðla að minni losun með forvörnum, fræðslu og ábyrgum lausnum í vöruframboði og þjónustu.

Umhverfisstefna og markmiðasetning eru verkfæri til að ná settum markmiðum. Félagið hefur sett sér stefnu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð og er markmið stefnunnar að stuðla að samþættingu á sjálfbærni og samfélagsábyrgð í starfseminni, að starfsemin uppfylli kröfur sem til hennar eru gerðar og að Sjóvá sé í fararbroddi á þessu sviði. Sjóvá hefur skuldbundið sig til að draga úr losun frá starfseminni milli ára og kolefnisbinda sem nemur losun frá starfsemi félagsins í lok hvers árs.

Tengd heimsmarkmið

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem tengjast loftlagsbreytingum:

Félagið hefur í samræmi við umhverfisstefnu sett upp markmið og mælikvarða til að fylgjast með þróun umhverfisvísa og notkun auðlinda í rekstrinum. Leitast er við að minnka umhverfisspor eftir föngum, styðja við hringrásarhagkerfið og minnka losun gróðurhúsalofttegunda með fjölþættum verkefnum.

Fjarskoðunarlausnin Innsýn

Notkun á fjarskoðunarlausninni Innsýn fer vaxandi. Lausnin hefur undanfarin misseri aðallega verið notuð fyrir tjónaskoðanir í eignatjónum en á árinu 2024 jókst notkun hennar umtalsvert við það að farið var af stað með áhættumat á fasteignum í fjarskoðun og í einhverjum tilvikum var hún nýtt við tjónamat á ökutækjum.

Notkun á Innsýn dregur umtalsvert úr kolefnisspori við ferðalög tjónamatsmanna og hefur hún einnig þann stóra kost að gera viðskiptavinum kleift að koma réttum upplýsingum um umfang og aðstæður á vettvangi tjóns samstundis til okkar. Fyrir vikið getum við oft annast mat og uppgjör á tjóninu hraðar. Viðskiptavinir hafa tekið lausninni vel og eru ánægðir með þá hröðu og skilvirku þjónustu sem hún gerir mögulega. 

Framrúðuverkefni

Í samstarfi okkar við bílaverkstæði og viðskiptavini var áfram unnið að því á árinu að auka hlutfall framrúðuviðgerða á kostnað framrúðuútskipta. Áfram var áhersla lögð á að miðla upplýsingum um ávinning við framrúðuviðgerðir til viðskiptavina og framrúðuplástri með fræðsluupplýsingum var áfram dreift til þeirra, meðal annars í gegnum verkstæði.

Á árinu héldum við sérstakan „Pop-up“ rúðuviðgerðadag í bílastæðahúsi Kringlunnar í samstarfi við þjónustuaðila okkar ásamt verslunarmiðstöðinni sem auglýst var á miðlum félagsins og í markpósti til viðskiptavina Sjóvá. Viðbrögðin voru langt umfram væntingar og komust færri að en vildu.

Tekist hefur að auka hlutfall framrúðuviðgerða á móti framrúðuskiptum töluvert á undanförnum árum og var árið í ár engin undantekning þar á. Markmið okkar er að ná að gera við 20% bílrúða sem lenda í tjóni.

Notaðir varahlutir

Við gerum ríkar kröfur til samstarfsaðila og að þeir séu meðvitaðir um að lágmarka sóun. Eitt af því er krafa um að kanna hvort til sé notaður varahlutur við viðgerðir bifreiða. Við erum með markmið um að auka notkun á notuðum varahlutum í ökutækjatjónum og jókst það hlutfall lítillega milli ára. Árangur þessa verkefnis fer mikið eftir því hvort notaðir varahlutir séu til í landinu, en varahlutirnir verða að vera yngri en bifreiðin sem er verið að gera við og í góðu ásigkomulagi þannig að öruggt sé að nota þá. Við munum áfram reyna að hækka þetta hlutfall en sökum breytinga á samsetningu bílaflotans þykir ósennilegt að þetta hlutfall hækki mikið á næstu misserum.

Endurnýting og lengri líftími tjónsmuna 

Við erum alltaf að leita leiða til að nýta tjónsmuni sem við eignumst til að lágmarka sóun. Því miður er það ekki alltaf hægt en oft er þó hægt að finna góð nyt fyrir tjónamunina. Við höfum verið í góðu samstarf við Fjölsmiðjuna í Reykjavík, Fjölsmiðjuna á Suðurnesjum og Borgarholtsskóla þar sem tjónamunir ganga í endurnýjun lífdaga og nýtast til kennslu og þjálfunar og einnig höfum við átt í góðu samstarfi við húsnæðisfulltrúa flóttafólks.

Þegar viðskiptavinir okkar eiga bótarétt vegna muna sem hafa skemmst bjóðum við þeim, þegar það er mögulegt, val milli þess að fá hlutinn bættan á fullu verði gegn afhendingu hans eða þeir haldi nýtilegum munum og fái greiddar bætur að hluta sem endurspegla virði þeirra. Með þessu minnkar sóun og nýtilegir hlutir enda síður í ruslinu auk þess sem viðskiptavinir hafa aukið valfrelsi um ráðstöfun tjónabóta. Aukin áhersla hefur verið á þessa leið við afgreiðslu munatjóna og má greina að viðskiptavinir séu að taka vel í þessa þróun.

Vel er gætt að því að þeim munum sem ekki eru nýtilegir sé fargað á sem skynsamastan hátt. Félagið er með starfsmann í hlutastarfi að fylgja því eftir að koma munum í góð not en jafnframt að þeir munir sem er fargað séu flokkaðir á réttan og ábyrgan máta. 

Samgöngusamningar

Áfram var boðið upp á samgöngusamninga við starfsfólk með það að markmiði að styðja við umhverfisvænni ferðamáta til og frá vinnu. Fjöldi samninga stóð því sem næst í stað milli ára og eflaust tækifæri í að kynna þá betur.

Vefskráning tjóna

Unnið var að því að auka vefskráningu tjóna í samræmi við markmið þar um. Hlutfallið óx á milli ára þó hægt hafi verulega á vextinum. Það að tilkynna tjónið rafrænt er ekki bara þægilegra fyrir viðskiptavini heldur er það líka umhverfisvænni leið sem gerir okkur einnig mögulegt að afgreiða mörg tjón hraðar en áður.

Rafræn viðskipti

Á árinu var hætt að senda út pappír til viðskiptavina nema þeir óskuðu sérstaklega eftir því. Við þetta snar jókst hlutfall viðskiptavina í rafrænum viðskiptum, sem þó var orðið yfir 72% í lok árs 2023.

Sjóvá móttekur aðeins rafræna reikninga en umtalsverð vinna fór fram á árinu til að einfalda yfirferð og sjálfvirknivæða ferla við samþykkt þeirra í tjónum. Að jafnaði hefur um helmingur rafrænna reikninga sem berast vegna tjónskostnaðar verið afgreiddur sjálfvirkt. Þetta sparar umtalsverða vinnu hjá okkur og hraðar afgreiðslu reiknings til birgja.

Árangur

Kolefnislosun

Heildarlosun Sjóvár fyrir 2024 nam

186

kolefnisígildistonnum, samanborið við 167 árið 2023.

Losun vegna notkunar jarðefnaeldsneytis dróst saman í takt við fjölgun hreinorkubíla og aukna notkun fjarskoðunarlausnar. Mæld losun jókst umtalsvert vegna viðskiptaferða sem skýrist einnig að hluta af nákvæmari mælingu á þeim. Örlítil hækkun var einnig í losun vegna samgangna starfsmanna til og frá vinnu.

Sjóvá hefur bundið kolefni sem svarar eigin losun vegna rekstrar á árinu 2024 líkt og undanfarin ár. Við höfum verið með samning um kolefnibindingu með skógrækt við Kolvið frá árinu 2015 og við SoGreen, sem vinnur að forðun losunar með menntaverkefnum fyrir stúlkur í Afríku, frá árinu 2023. Kolefniseiningar Kolviðar eru vottaðar en SoGreen vinnur að vottun á sínum verkefnum.

Dregið úr akstri með Innsýn

Með Innsýn náðum við að draga úr akstri tjónamatsmanna um 30 þúsund kílómetra á árinu 2024 eða sem samsvarar 25 hringjum í kringum landið, en þá er ótalinn sparnaður viðskiptavina við akstur til að hitta tjónamatsmenn. Við erum sannfærð um að hægt sé að nota lausnina enn frekar og nú erum við einnig að nota hana í auknum mæli til fasteignaskoðana, við nýsölu trygginga sem og við tjónamat einstaka ökutækjatjóna. 

Fjölgun framrúðuviðgerða

Hlutfall framrúðuviðgerða var 17,22% á árinu 2024 en til samanburðar var hlutfallið 14,5% árið á undan. Við bindum vonir við að hlutfallið haldi áfram að vaxa, enda hefur orðið vitundarvakning hjá viðskiptavinum sem njóta mikils ávinnings ef viðgerð er möguleg en viðgerð er viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

Hlutfall framrúðuviðgerða á móti framrúðuskiptum 2014-2024

Notaðir varahlutir

Hlutfall notaðra varahluta í viðgerðum sem framkvæmdar voru á bifreiðaverkstæðum fyrir Sjóvá var 5,0% á árinu 2024. Það er aukning á milli ára en hlutfallið var 4,6% árið á undan en áskoranir eru sannarlega til staðar á þessu sviði og fara vaxandi.

Endurnýting tjónsmuna, lengri líftími og förgun

Á árinu fóru 31 sending til Fjölsmiðjunnar í Reykjavík, Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum og til Borgarholtsskóla. Þar var meðal annars um að ræða matvöru, reiðhjól, tölvu- og tækjabúnað, málningu og fleira. 

Í samvinnu við Húsnæðisfulltrúa flóttafólks aðstoðuðum við 19 fjölskyldur með húsbúnað til að koma sér fyrir á nýjum stað. Við ráðstöfum einnig munum til góðgerða- og íþróttafélaga á árinu og fóru frá okkur 24 sendingar til ýmissa félaga.

Tæplega 400 einingum var fargað 2024, það er allt frá smáhlutum að því sem stærra er. Allir málmar og tæki sem ekki er hægt að nýta fara til endurvinnslu hjá Hringrás.

Aukning rafrænna tjónstilkynninga

Hlutfall rafrænna tjónstilkynninga frá viðskiptavinum hækkaði lítillega og fór upp í 80,36%. Mikill árangur hefur náðst á undanförnum árum í að auka þetta hlutfall með samhentu átaki starfsfólks.

Rafræn viðskipti

Hlutfall viðskiptavina í rafrænum viðskiptum var

94,1%

í árslok, en var 72% í fyrra.

Mikill akstur sparaðist með notkun rafrænna undirskrifta, eða sem nam 680.665 km samkvæmt reiknivél hugbúnaðarfyrirtækisins Taktikal, sem er um 24% aukning frá 2023.

UFS áhættumat fyrir umhverfisþætti

Samkvæmt UFS áhættumati Reitunar sem unnið var á árinu 2024 fékk Sjóvá 88 stig af 100 mögulegum fyrir umhverfisþætti og einkunnina A3.

Markmið

  • Að draga úr losun frá starfsemi félagsins.
  • Að draga úr losun frá eigin samgöngum og ferðum starfsfólks til og frá vinnu.      
    Að eigin starfsemi félagsins verði kolefnishlutlaus.
  • Að auka hlutfall viðskiptavina í rafrænum viðskiptum.     
  • Að auka hlutfall vefskráningar tjóna.
  • Að upplýsa viðskiptavini um kosti umhverfisvænni tjónaþjónustu til að auka veg hennar og minnka sóun.