Sjálfbærni

Mannauður

Sjóvá hlúir vel að starfsaðstæðum og fyrirtækjamenningu og vill vera eftirsóknarverður vinnustaður sem getur ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk. Lögð er rík áhersla á starfsánægju, öfluga starfsþróun og símenntun starfsfólks, enda litið á þessa þætti sem undirstöðu góðs rekstrar og forsendu ánægju viðskiptavina.

Sjóvá hefur um árabil unnið markvisst að jafnréttismálum og lagt áherslu á að vera í fararbroddi í málaflokknum. Stefna Sjóvár í jafnréttismálum byggir á mannréttindastefnu sem miðar að því að tryggja jöfn laun og tækifæri starfsfólks og fjölbreytileika í samsetningu stjórnar, stjórnenda og starfsfólks. Sjóvá hefur í heiðri grundvallarmannréttindi eins og þeim er lýst í alþjóðasamningum.

Tengd heimsmarkmið

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem tengjast mannauði:

Aðgerðir

Mælingar

Á árinu voru að vanda framkvæmdar ýmsar mælingar til að halda utan um stöðuna í mannauðsmálum. Stærstu kannanirnar sem framkvæmdar voru af ytri aðilum á árinu voru starfsánægjukönnun Gallup Q12 og könnun VR um Fyrirtæki ársins. Starfsmannasamtöl fóru einnig fram á árinu en að jafnaði fara þau viðtöl fram fjórum sinnum á ári.

Rafrænt fræðslukerfi

Þekking er eitt af gildum félagsins og er öflugt fræðslustarf mikilvægur þáttur í að viðhalda sérþekkingu sem styður við framúrskarandi þjónustu og ráðgjöf til viðskiptavina Sjóvár. Á árinu 2024 var tekið í gagnið nýtt rafrænt fræðslukerfi, Viska, sem styður vel við þessar áherslur. Á árinu voru 183 námskeið og fræðsluerindi í boði í Visku, bæði námskeið sem henta nýju starfsfólki í þjálfun, sem og starfsfólki með lengri starfsreynslu.

Í árslok voru starfrækt

13 útibú

Sjóvár um allt land.

Í árslok störfuðu

196 starfsmenn

í 183 stöðugildum hjá Sjóvá.

Kaupréttarsamningar við starfsfólk

Í september var gengið frá kaupréttarsamningum við fastráðið starfsfólk Sjóvár, í samræmi við kaupréttaráætlun sem stjórn félagsins fékk heimild fyrir að útfæra á aðalfundi 2024. Markmiðið með kaupréttaráætluninni er að tengja saman hagsmuni starfsfólks og hluthafa, auk þess sem áætlunin hjálpar til við að laða að hæft starfsfólk og halda því innan félagsins á samkeppnishæfum kjörum.

Úttekt á jafnlaunakerfi

Frá árinu 2014 hefur Sjóvá verið með jafnlaunavottun sem staðfestir að hjá Sjóvá sé virkt jafnlaunakerfi. Stöðugar umbætur eru gerðar á kerfinu og reglulegar mælingar á árangri þess. Á árinu 2024 var líkt og undanfarin ár framkvæmd úttekt ytri aðila á jafnlaunakerfinu og vottunin endurnýjuð í kjölfar jákvæðrar niðurstöðu hennar. Sjóvá átti einnig sæti í stýrihóp Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA en félagið hefur verið stoltur bakhjarl þess til 7 ára.

Stefnumótunarvinna með öllu starfsfólki

Á árinu var ráðist í stefnumótunarvinnu og eins og áður tók allt starfsfólk ríkan þátt í þeirri vinnu. Ný stefna og gildi litu svo dagsins ljós á vinnudegi starfsmanna þann 28. september. Í kjölfarið var ráðist í hin ýmsu verkefni til að bæta vinnurými og þekkkingar- og upplýsingamiðlun svo fátt eitt sé nefnt.   

Meðalstarfsaldur starfsfólks var í árslok

10 ár og 4 mánuðir

Tilkynningagátt

Á árinu var tekin í notkun tilkynningagátt þar sem fólk getur tilkynnt um misferli eða aðra ámælisverða háttsemi sem tengist Sjóvá, nafnlaust eða undir nafnleynd. Gáttinni er ætlað að skapa öruggan vettvang fyrir starfsmenn og ytri aðila til að koma á framfæri tilkynningum um misferli eða ámælisverða háttsemi hjá Sjóvá eða sem valdið getur viðskiptavinum, félaginu og samfélaginu tjóni eða skaðað orðspor félagsins. Öryggi og trúnaður er forgangi við meðhöndlun tilkynninga. Með þessu er verið að uppfylla kröfur laga nr. 40/2020 um vernd uppljóstrara sem eiga við öll fyrirtæki og lög nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi. Verklag við móttöku og meðferð tilkynninga var sérstaklega kynnt öllu starfsfólki.

Hlúð að velferð og heilsu starfsfólks

Líkt og fyrri ár var lögð áhersla á aðgerðir tengdar almennri velferð og heilsu starfsfólks með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum, lengra fæðingarorlofi og annarri vinnuhagræðingu. Árleg heilsufarsskoðun fór fram og áfram voru greiddir líkamsræktarstyrkir. Sálfræðitímar og sjúkraþjálfunartímar voru einnig niðurgreiddir, en allt eru þetta stuðningsaðgerðir sem ætlað er að draga úr líkum á lífsstíls- og heilsuáhættum og auka velferð starfsfólks.

Árangur

Ánægja starfsfólks

Í árlegri könnun Gallup, sem framkvæmd var fyrir árið 2024, var starfsánægja starfsfólks Sjóvá með því hæsta sem mælist hjá íslenskum fyrirtækjum og í topp 5% fyrirtækja í gagnabanka Gallup á Íslandi. Starfsánægja mældist 4,65 af 5 mögulegum og hækkaði um 0,05 stig milli ára.

Þróun starfsánægju hjá Sjóvá samkvæmt mælingum Gallup

Fyrirmyndarfyrirtæki VR

Sjóvá var í 4. sæti meðal stærri fyrirtækja í könnun VR um Fyrirtæki ársins og hlaut því nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki 2024. Könnunin mælir stöðu á níu mikilvægum þáttum í starfsumhverfi og var Sjóvá efst allra fyrirtækja á þáttunum stjórnun, ánægja og stolt.

Fræðsluviðurkenning VR

Sjóvá hlaut Fræðsluviðurkenningu VR 2024, sem er ný viðurkenning sem veitt er einu fyrirtæki í hverjum stærðarflokki sem skarar fram úr á sviði starfsþróunar og símenntunartækifæra, að mati starfsfólks þess fyrirtækis.

Jafnlaunavottun og staða jafnréttismála

Á árinu 2024 mældist óútskýrður launamunur kynjanna 0,6% samkvæmt úttekt óháðs ytri aðila. Jafnlaunavottun Sjóvár var endurnýjuð á árinu 2024, líkt og hún hefur verið frá því að félagið fékk hana fyrst 2014.

Sjóvá hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA, í 6. sinn á árinu 2024, en verkefnið hefur þann tilgang að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi.

Hér má sjá kynjaskiptingu starfsfólks og stjórnenda miðað við árslok 2024:

Karlar voru

52%

starfsfólks

Konur voru

48%

starfsfólks

Karlar voru

56%

stjórnenda

Konur voru

44%

stjórnenda

Hæsta einkunn fyrir félagsþætti í UFS mati

Sjóvá fékk hæstu einkunn gefna fyrir félagsþætti í UFS áhættumati Reitunar fyrir 2024, einkunnina A1 eða 97 stig af 100 mögulegum fyrir flokkinn. Þar af fékk Sjóvá 100 stig af 100 mögulegum fyrir undirflokkinn Mannauð.

Endurmenntun og fræðsla

Mikilvægur þáttur í fræðslustarfi félagsins eru reglulegir fræðslufundir fyrir allt fyrirtækið á miðvikudagsmorgnum. Alls voru haldnir 25 morgunfundir fyrir starfsfólk á árinu. Fjölbreytt erindi voru í boði, bæði fræðsla frá sérfræðingum félagsins sem hefur það að markmiði að miðla þekkingu milli deilda en einnig erindi frá utanaðkomandi sérfræðingum um jafnrétti og inngildingu, heilsu, lífeyrismál, sjálfbærniverkefni og margt fleira.

Á árinu var sem fyrr segir tekið í notkun nýtt rafrænt fræðslukerfi, Viska, sem styður við öflugt fræðslu- og endurmenntunarstarf félagsins og felast mikil tækifæri í því bæði varðandi aðgengi að upptökum að innanhús fræðslu og einnig aðkeyptu rafrænu efni.

Á árinu sóttu 45 starfsmenn 15 stunda grunnnám í lögum um vátryggingar í Tryggingskólanum við Háskólann í Reykjavík. Námið er að hluta til rafrænt en einnig er staðarlota þar sem unnið er í hópum með ákveðin málefni.

Tryggingaskólinn hefur verið rekið sem samstarfsverkefni HR, SFF og tryggingafélagana síðan 2007 en unnið hefur verið að því undanfarin ár að gera námið að stórum hluta rafrænt til að hleypa fleiri nemendum að á hverjum ári. Samstarfið hefur gefist vel og eru í vinnslu 3 ný námskeið á þessu sviði.

Starfsfólk okkar er einnig verið duglegt að koma auga á tækifæri til sækja sér viðbótarþekkingu í gegnum nám, námskeið eða ráðstefnur innanlands og erlendis, bæði til að viðhalda þekkingu sinni og til að afla sér nýrrar þekkingar. Við leggjum við okkur fram um að styðja við slíkt frumkvæði starfsfólks enda er þekking eitt af okkar grunngildum.

Mér finnst mesti styrkleiki Sjóvá vera samheldni starfsmanna, umhyggja fyrirtækisins fyrir starfsfólki og metnaður til að gera alltaf betur.
;
Umsögn starfsmanns úr starfsánægjukönnun Gallup.

Markmið

  • Að starfsánægja sé meðal 8% efstu mælinga á starfsánægju í gagnagrunni Gallup á Íslandi.  
  • Að óleiðréttur launamunur kynja sé ekki meiri en 2%.
  • Að hlutföll kynja séu sem jöfnust í öllum flokkum, þ.e. starfsfólks, framkvæmdastjórnar, stjórnendahóps, stjórna og nefnda og að meðaltal hlutfalla allra flokka sé milli 40% og 60%.
  • Að fræðslustarf félagsins miði að því að viðhalda og bæta þekkingu starfsfólks til að veita framúrskarandi þjónustu og ráðgjöf.
  • Að í boði séu fjölbreytt tækifæri símenntunar fyrir starfsfólk bæði innan- og utanhúss.