Sjóvá fylgir í hvívetna þeim lögum, reglum og tilmælum sem um starfsemina gilda. Félagið leitast við að tryggja gagnsæi um reksturinn með reglubundinni upplýsingagjöf og samskiptum við hagaðila í samræmi við stöðu félagsins.
Sjóvá uppfyllir lágmarksverndarráðstafanir í samræmi við ákvæði flokkunarreglugerðar Evrópusambandsins. Samhæfð áhættustýring nær til allra rekstrarþátta félagsins. Settar hafa verið áhættustefnur og að auki stefnur um upplýsingaöryggi og persónuvernd sem eiga að tryggja vernd upplýsinga, réttleika gagna, aðgengi og öryggi þeirra. Sjóvá leggur mikla áherslu á upplýsingaöryggi og fyrirbyggjandi aðgerðir í þeim efnum.
Sjóvá vill standa fyrir og stuðla að góðum og faglegum viðskiptaháttum. Félagið hefur skýra stefnu um að vinna gegn hvers konar spillingu, glæpsamlegri starfsemi og peningaþvætti í öllum viðskiptum félagsins.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem tengjast stjórnarháttum:
Til að stýra áhættum sem snúa að stjórnkerfi og öðrum áhættum í rekstri hefur Sjóvá sett sér stefnur, markmið og mælikvarða. Með stefnum, reglum og aðgerðum uppfyllir félagið jafnframt kröfur um lágmarksverndarráðstafanir í samræmi við 18. gr. flokkunarreglugerðar Evrópusambandsins líkt og neðan greinir.
Mannréttindastefna Sjóvár lýsir áherslum félagsins í mannréttinda- og jafnréttismálum og fjölbreytileika. Markmið stefnunnar er að tryggja jafna stöðu, tækifæri og fjölbreytileika á öllum sviðum félagsins og með henni uppfyllir alþjóðlegar laga- og leiðbeiningakröfur um félagsleg viðmið, mannréttindi, aðgerðir og áreiðanleikakönnunarferla.
Félagið hefur sett sér stefnu um varnir gegn mútum og spillingu sem lýsir áherslum og aðgerðum Sjóvár í málaflokknum. Skattastefna félagsins tryggir að skattaáhættu sé stýrt og að farið sé eftir lögum og reglum varðandi skatta og stuðlar að gagnsæi í skattamálum. Félagið hefur sett sér reglur um vernd uppljóstrara.
Tilkynningagátt, meðhöndlun ábendinga og kvartana
Á árinu var tekin í notkun tilkynningagátt fyrir tilkynningar um misferli og aðra ámælisverða háttsemi þar sem starfsmenn og aðrir hagaðilar geta sent inn tilkynningar nafnlaust eða undir nafnleynd. Stefna um meðhöndlun ábendinga og kvartana er einnig í gildi sem tryggir gagnsætt og skilvirkt verklag við úrvinnslu og skjóta og sanngjarna afgreiðslu.
Samkeppnisréttaráætlun
Félagið hefur sett sér samkeppnisréttaráætlun til að greina og draga úr samkeppnisréttarlegum áhættum og tryggja eins og kostur er að félagið starfi í samræmi við samkeppnislög og góða viðskiptahætti.
Stefna í fræðslumálum
Félagið hefur sett sér stefnu í fræðslumálum með það að markmiði að starfsfólk efli og viðhaldi þekkingu sinni og hæfni. Í samræmi við ofangreindar reglur og stefnur eru settar fram siðareglur fyrir félagið. Auk þess er Sjóvá með siðareglur fyrir birgja sem félagið gerir kröfu um að birgjar uppfylli og er þeim ætlað að stuðla að og tryggja að kröfur um góða viðskiptahætti og siðferði.
Upplýsingaöryggi og vernd persónuupplýsinga
Sjóvá leggur áherslu á öryggi og vernd upplýsinga, og hefur sett sér stefnur um upplýsingaöryggi og um persónuvernd í takt við viðeigandi lög og reglugerðir. Lögð er áhersla á að tryggja sem best upplýsingaöryggi og rétta meðferð upplýsinga, gagna og kerfa. Félagið stuðlar í starfsemi sinni að því að uppfylltar séu kröfur sem gerðar eru með öflugu innra eftirliti, reglulegum úttektum og prófunum ásamt því að vera með vottun á upplýsingaöryggi samkvæmt ISO27001 staðlinum. Félagið stóðst árlega úttekt á fylgni við staðalinn í maí 2024.
Stöðugt er unnið að því að meta og lágmarka áhættu vegna ógna við upplýsingaöryggi. Sjóvá vinnur náið með ýmsum innlendum og erlendum birgjum og sérfræðingum á þessu sviði til að tryggja eftirlit, prófanir og viðbragð á innviðum og upplýsingakerfum. Þá er fræðsla starfsfólks mikilvægur þáttur í að viðhalda þekkingu og tryggja rétt viðbrögð starfsfólks við frávikum á þessu sviði.
Birting sjálfbærniupplýsinga
Sjóvá birtir upplýsingar um markmið og árangur félagsins á UFS mælikvörðum í samræmi við UFS leiðbeiningar Nasdaq í sjötta sinn. Mælikvarðarnir eru birtir sem hluti af árs- og sjálfbærniskýrslu félagsins. Hafinn er undirbúningur innleiðingar tilskipunar Evrópusambandsins um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (CSRD).
Samstarf um sjálfbærni
Á árinu 2024 gerðist Sjóvá aðili að UN Global Compact, sem eru samtök Sameinuðu þjóðanna um ábyrga viðskiptahætti og stærsta sjálfbærniframtak heims. Með aðild skuldbindur Sjóvá sig til að vinna að tíu meginmarkmiðum UN Global Compact um ábyrga viðskiptahætti á sviði mannréttinda, vinnumarkaðsmála, umhverfismála og varna gegn spillingu. Sjóvá skilar einnig árlega inn upplýsingum um árangur sinn í sjálfbærni í opinberan gagnagrunn UN Global Compact, sem stuðlar að auknu gagnsæi og samanburðarhæfni í upplýsingagjöf.
Sjóvá hefur verið aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð frá 2014.
Félagið hefur enga dóma hlotið fyrir refsiverðan verknað skv. almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um vátryggingastarfsemi eða löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með vátryggingastarfsemi. Ekki er vitað um að nein atvik hafi átt sér stað í starfseminni sem snúa að mútum eða spillingu.
Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum
Félagið fékk í ágúst 2024 endurnýjaða vottunina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum á vegum Stjórnvísis en í því felst að félagið hafi undirgengist og staðist formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda.
Fræðsluviðurkenning VR
Sjóvá hlaut Fræðsluviðurkenningu VR 2024, sem er ný viðurkenning sem veitt er einu fyrirtæki í hverjum stærðarflokki sem skarar fram úr á sviði starfsþróunar og símenntunartækifæra, að mati starfsfólks þess fyrirtækis.
Vottun á upplýsingaöryggi
Félagið fékk á árinu endurnýjaða vottun á upplýsingaöryggi samkvæmt ISO27001 staðlinum. Vottunin staðfestir að rekstur upplýsingakerfa félagsins sé í samræmi við kröfur staðalsins en Sjóvá hefur verið með vottunina frá árinu 2014.
Hækkun í UFS áhættumati
Reitun hefur undanfarin ár framkvæmt UFS áhættumat á Sjóvá líkt og mörgum öðrum íslenskum fyrirtækjum en matið gerir grein fyrir hvernig fyrirtæki standa frammi fyrir áhættum sem snúa að umhverfis-, félags- og stjórnarháttum.
Samkvæmt heildarniðurstöðum matsins sem framkvæmt var árið 2024 fékk Sjóvá einkunnina B1, með 80 punkta af 100 mögulegum. Sjóvá var fært úr flokki B2 í B1 og hækkaði um 2 punkta þrátt fyrir að kröfur í matinu hafi aukist milli ára, en meðaltal íslenska markaðarins stóð þá í 71 punkti af 100.
Í matinu fékk Sjóvá 71 stig af 100 mögulegum og einkunnina B2 fyrir flokkinn stjórnarhætti. Fyrir undirflokkinn Almennir stjórnarhættir fékk félagið 93 stig af 100 eða einkunnina A2.