EN
  • Mínar síður
Loka valmynd
  • Ársskýrsla 2022
  • Ársreikningur
  • Ánægðir viðskiptavinir
  • Stjórnarhættir
  • Sjálfbærni
  • UFS

    Sjálfbærni

    Við hjá Sjóvá leggjum okkur fram um að starfa í sátt við samfélag og umhverfi. Með því að samþætta sjálfbærni og samfélagslega ábyrga starfsemi stuðlum við að vexti til framtíðar, til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

    Stefna um sjálfbærni

    Umhverfi

    Við leggjum okkar af mörkum til að stuðla að sjálfbærni og vernd umhverfisins með því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar með markvissum aðgerðum og ábyrgri og meðvitaðri nýtingu auðlinda. Á þessu sviði liggja helstu tækifæri okkar til áhrifa í öflugum forvörnum og við úrvinnslu tjóna. Unnið var að mörgum fjölbreyttum verkefnum á þessu sviði á árinu.

    Nýr og betri framrúðuplástur

    Síðustu árin höfum við unnið að því í samstarfi við verkstæði að auka hlutfall framrúðuviðgerða á kostnað framrúðuútskipta, en samkvæmt útreikningum sem verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Sjóvá losar það 24.000 sinnum meiri koltvísýring að láta skipta rúðu út en að gera við hana.

    Mikilvægur liður í þessu verkefni var að láta hanna og framleiða nýja framrúðuplástra, en notkun þessara plástra getur aukið til muna líkurnar á því að hægt sé að láta gera við skemmda rúðu. Á umbúðum nýja plástursins er upplýsingum um notkun hans og ávinning komið vel til skila, þannig að viðskiptavinurinn sé betur upplýstur. Nýja plástrinum var dreift til verkstæða og útibúa okkar um allt land og viðskiptavinir látnir vita af honum með ýmsum leiðum, markpósti, efni á samfélagsmiðlum og fleira. Hér skiptir enda miklu máli að koma plástrinum í sem mesta dreifingu og miðla upplýsingum um tilgang hans sem víðast.

    Fjölgum framrúðuviðgerðum

    Á undanförnum árum hefur tekist að auka hlutfall framrúðuviðgerða á móti framrúðuskiptum, í góðri samvinnu við verkstæðin. Því miður sáum við ekki hækkun á þessu hlutfalli á árinu 2022 þó að vissulega hafi verið gert við fleiri rúður en árið á undan. Hlutfall framrúðuviðgerða endaði í 11,92%, sem er lítilleg lækkun úr 12,13% 2021. Góðu fréttirnar eru þó að sé litið á síðustu 6 mánuði ársins var hlutfallið 14%, sem má án efa þakka átaki í upplýsingagjöf, dreifingu nýrra framrúðuplástra og samstarfi í þessum efnum. Við bindum vonir við að þær tölur séu vísbending um það sem koma skal og munum að sjálfsögðu halda samstarfi við verkstæðin áfram. Við stefnum að enn hærra hlutfalli framrúðuviðgerða á næsta ári, enda sjáum við dæmi um frábæran árangur í þessum efnum hjá ákveðnum verkstæðum.

    „Hitt er bara svo rosaleg sóun“

    Gylfi Ingimarsson stofnaði verkstæði sitt G Ingimarsson á Sauðárkróki árið 2016. Þá hafði hann unnið við bílaviðgerðir um langa hríð og vissi að oft væri hægt að gera við mun fleiri skemmdir en í raun væru lagaðar. Hann dreif því í að stofna fyrirtækið með það að markmiði að gera við sem flestar framrúður. Hlutfall framrúðuviðgerða hjá verkstæði Gylfa var 55% árið 2022, af þeim tjónum sem voru bótaskyld hjá Sjóvá. Það sýnir sannarlega hvað hægt er að gera við mikið af þeim framrúðum sem skemmast.

    „Hitt er bara svo rosaleg sóun. Ég geri við það sem er einhver leið að bjarga, því nóg er af hinu samt. Viðmiðið er svona krónupeningur, skemmdin má ekki vera stærri en það og það má ekki gera við skemmd sem er í sjónlínu ökumanns. Fólk er mjög jákvætt fyrir því að láta gera við skemmdina ef það er hægt. Það átta sig þó ekki allir á því að viðgerð sé möguleiki en þegar ég útskýri málið sér það klárlega kostina, fyrir sig sjálft, ökutækið og umhverfið. Vandamálið er hins vegar að oft kemur fólk til mín og segir „Ég þarf að fá nýja framrúðu hjá þér, ég var búinn að vera með smá stjörnu í rúðunni í langan tíma og alltaf á leiðinni til þín og svo allt í einu sprakk hún!“. Þetta er áskorunin, að fá fólk til að koma áður en rúðan springur út frá skemmdinni, t.d. í frosti og sól.“- Gylfi Ingimarsson, eigandi G Ingimarsson

    Umhverfisframtak ársins

    Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt á Umhverfisdegi atvinnulífsins í byrjun október. Þar hlaut Sjóvá verðlaunin Umhverfisframtak ársins 2022 fyrir að huga vel að umhverfisáhrifum í starfsemi sinni, með fjarskoðunarlausninni Innsýn og átaki við að upplýsa viðskiptavini um umhverfislegan ávinning af framrúðuviðgerðum.

    Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Sjóvá leiti stöðugt leiða til að minnka umhverfisáhrif af tjónavinnslu með hag viðskiptavina og samfélagsins alls að leiðarljósi. Innsýn og framrúðuplástursverkefnið endurspegli þessar áherslur vel og styðji við hringrásarhagkerfið.

    „Það skiptir Sjóvá miklu máli að leggja sitt að mörkum þegar kemur að umhverfismálum. Helstu tækifæri okkar á þessu sviði liggja eðli málsins samkvæmt í tjónavinnslu og forvörnum. Við viljum nýta þau tækifæri sem við höfum í nýsköpun og vöruþróun til að bæta þjónustu okkar við viðskiptavini um leið og við hugum að umhverfinu og hagsmunum samfélagsins alls. Þetta fer nefnilega yfirleitt vel saman, líkt og framrúðuplástursverkefnið og fjarskoðunarlausnin Innsýn sýna. Við lítum á þessa viðurkenningu sem hvatningu til að halda áfram af krafti á þessari braut og það ætlum við okkur sannarlega að gera.”- Elín Þórunn Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri Tjónasviðs

    Innsýn sannar enn gildi sitt

    Fjarskoðunarlausnin Innsýn gerir okkur kleift að skoða tjón í gegnum snjalltæki viðskiptavinar og getum við þannig brugðist ólíkt hraðar við og um leið sparað umtalsverðan akstur tjónamatsmanna á tjónsstað. Á árinu 2022 voru framkvæmdar um 800 rafrænar tjónaskoðanir með Innsýn. Þetta sparaði 40.000 ekna kílómetra fyrir tjónamatsmenn okkar, en að auki spara viðskiptavinir og verktakar sér oft einnig akstur sem ekki eru inni í mælingunni.

    Til viðbótar við þetta gerir Innsýn okkur kleift að afgreiða mörg tjón mun hraðar, sem skilar sér í ánægju viðskiptavina þar sem afgreiðsluhraði fer þá fram úr væntingum þeirra. Við höldum því áfram að leggja mikla áherslu á að skoða tjón með rafrænum hætti þar sem því verður við komið, með hag umhverfisins og viðskiptavina að leiðarljósi.

    Endurnýting tjónsmuna

    Eðli málsins samkvæmt fær tryggingafélag í hendurnar mikið af tjónsmunum, sumum ónýtum eða illa förnum en öðrum sem hafa enn fullt notagildi og lítið sér á. Við leggjum okkur fram um að koma slíkum hlutum á staði þar sem þeir geta nýst og styðjum þannig við hringrársarhagkerfið með samstarfi við góða aðila. Sem dæmi eigum við í samstarfi við Fjölsmiðjuna í Reykjavík og Fjölsmiðjuna í Reykjanesbæ um endurnýtingu ýmissa tjónsmuna. Einnig höfum við ráðstafað endurnýtanlegum tjónsmunum til annarra samtaka sem vinna að samfélagslegri uppbyggingu. Með þessu vinnum við að aukinni sjálfbærni samhliða því að styðja við uppbyggingu félagslegra verkefna.

    Samstarf við húsnæðisfulltrúa flóttafólks

    Á árinu 2022 hafði borist okkur töluvert af húsgögnum í góðu ástandi vegna tjóna; sófum, rúmdýnum og botnum, borðstofuborðum, ísskápum og fleiru. Mikill vilji var til að koma þessum munum til þeirra sem gætu nýtt þá og lá þá beinast við að athuga hver þörfin væri hjá þeim hópi flóttafólks sem kom til landsins á árinu. Við hófum því samstarf við húsnæðisfulltrúa flóttafólks sem hefur reynst afar farsælt.

    „Þetta samstarf hefur gengið mjög vel og afar ánægjulegt að geta komið þessum hlutum þangað sem þörfin er mikil. Þetta eru 24 fjölskyldur sem fengu frá okkur ýmsa muni í góðu ástandi á síðasta ári og þær verða án efa fleiri, enda mikil ánægja með þetta fyrirkomulag. Það er allra hagur að koma þessum munum í notkun og góð tilfinning að geta stutt við fjölskyldur sem eru að koma undir sig fótunum hér á landi.“- Magnús Ingólfsson, tjónamatsmaður

    Dúkur úr Hamarshöll endurnýttur

    Í febrúarmánuði gerði aftakaveður á Suðurlandi sem varð til þess að Hamarshöllin í Hveragerði fauk niður. Höllin hafði verið í notkun frá 2012 og var tryggð hjá Sjóvá. Í kjölfar atburðarins höfðum við strax samband við bæjarstjóra um aðkomu okkar að því að lágmarka tjónið og minnka umhverfisáhrif þess. Við fengum íþróttafélagið Hamar til liðs við okkur og fékk það sjálfboðaliða úr sínum röðum í hreinsunarstarfið, sem fólst í að skera dúkinn niður í rúllur. Hamar fékk síðan efnið að gjöf og gat selt það og nýtt ágóðann í íþrótta- og æskulýðsstarf sitt. Með þessum hætti var hægt að lágmarka sóun og hámarka nýtingu þess efnis sem féll til við tjónið og styrkja um leið innviði og íþróttastarf í samfélaginu.

    Hreinsunarstarfið gekk afar vel en það var unnið á tveimur dögum af sjálfboðaliðum Hamars undir verkstjórn sérfræðinga okkar. Það var ánægjulegt að upplifa mikinn samtakamátt samfélagsins í Hveragerði sem tókst með öflugri samvinnu að snúa hér erfiðu tjóni í tækifæri. Verktakar, bændur, smærri fyrirtæki í grænmetisrækt og fleiri keyptu þennan níðsterka dúk í fermetravís til fjölbreyttra verka.

    Annar valkostur en bílaleigubíll

    Þegar viðskiptavinur þarf að fara með ökutæki sitt í viðgerð eftir tjón standa honum þrír valkostir til boða. Hann getur fengið bílaleigubíl til afnota á meðan á viðgerðinni stendur, rafskútu frá Hopp eða fengið greiddar bætur fyrir afnotamissi þá daga sem bíllinn er í viðgerð. Við höfum undanfarin ár reynt að auka hlutfall þeirra sem þiggja bæturnar með því að upplýsa viðskiptavini betur um valkostina, enda ekki allir sem þurfa á bílaleigubílnum að halda.

    Eftir að hafa séð jafna hækkun á þessu hlutfalli undanfarin ár tók það því miður nokkra dýfu árið 2022 og fór niður í 21,2%. Hér hafa ýmsir þættir áhrif, eins og t.d. lengri viðgerðartími vegna óvenjulegra aðstæðna á heimsmarkaði. Þær hafa orðið til að auka eftirspurnina eftir bílaleigubílum til muna þar sem fólk átti erfiðara með að vera án bíls í lengri tíma. Við lítum þó á þessar áskoranir sem klárt tækifæri til að gera betur og munum setja aukinn kraft í þetta verkefni á árinu 2023.

    Samfélag og forvarnir

    Við höfum um árabil unnið með viðskiptavinum okkar að forvörnum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, enda samfélagsleg skylda tryggingarfélaga að stuðla að góðu og öruggu samfélagi. Við vinnum einnig að forvörnum í samstarfi við ýmsa góða aðila og styrkjum félagasamtök sem vinna af krafti að forvörnum, í víðu samhengi.

    Forvarnir fyrirtækja

    Við eigum í góðu samstarfi við fyrirtæki í viðskiptum á sviði forvarna, enda allra hagur að koma í veg fyrir að slys eða tjón hljótist af starfsemi þeirra. Á þessu sviði höfum við meðal annars lagt áherslu á áhættuskoðanir á eignum, reglulega tölfræðigreiningu og skýrslur til viðskiptavina um þróun tjóna, atvikaskráningu og eftirfylgni og forvarnarkynningar fyrir starfsfólk, svo dæmi séu nefnd.

    Á árinu 2022 var haldinn morgunfundur fyrir öll sveitarfélög landsins um forvarnir sveitarfélaga og heimsóknir í fyrirtæki gátu hafist að nýju þegar samfélagið fór aftur að taka á sig fyrri mynd. Farið var meðal annars í heimsóknir í allar stærri bílaleigur fyrir sumarið og í fjölda annarra fyrirtækja. Gefnir voru út tveir nýir bæklingar, Forvarnir í ferðaþjónustu og Tryggingar björgunarsveita. Gefin voru út fjögur forvarnarmyndbönd sem deilt var til fyrirtækja, en þau fjölluðu um hvernig bakka á í stæði, notkun framrúðuplásturs, snjókeðjur og bílbelti. Myndböndin má nálgast hér.

    Forvarnir með fjölbreyttum leiðum

    Björgunarskipið Þór til hafnar í Vestmannaeyjum

    Árið 2021 styrkti Sjóvá kaup Landsbjargar á nýjum björgunarskipum um 142,5 milljónir króna, en styrkurinn gerði Landsbjörgu mögulegt að hefja smíði fyrstu þriggja skipanna. Í október 2022 var fyrsta nýja björgunarskipið, Þór, formlega afhent í Vestmannaeyjum, þar sem heimahöfn þess verður.

    Með skipunum styttist viðbragðstími Landsbjargar á sjó um helming í flestum tilfellum. Skipin munu því valda straumhvörfum í viðbragðstíma og aðbúnaði fyrir áhafnir og skjólstæðinga. Þau skipta miklu máli fyrir öryggi sjófarenda í kringum landið en eru einnig hönnuð með það í huga að geta aðstoðað við björgunarverkefni á landi.

    „Þór hefur þegar sannað gildi sitt við leit og björgun. Þór hefur meðal annars tekið þátt í stóru og flóknu leitarverkefni þar sem aðstaða um borð sannaði vel að löngu tímabært var hefja uppfærslu björgunarskipaflota Landsbjargar, enda mun auðveldara fyrir áhafnir núna að skipuleggja leitar- og björgunarstörf í verulega bættum tækjakosti. Ljóst er að Þór hefur stækkað það svæði það sem hægt er að þjónusta sjófarendur í neyð verulega bæði vegna aukins ganghraða og þess hve vel skipið hefur reynst á erfiðu íslensku hafsvæði.“– Örn Smárason, verkefnastjóri hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu

    Þróun á Safetravel appinu

    Safetravel appið var þróað áfram en appið er samstarfsverkefni Sjóvá og Landsbjargar, unnið af Stokki. Á árinu 2022 var m.a. bætt inn vindakorti og tilkynningum um ástand á gosstöðvum í samstarfi við Almannavarnir. Yfir 100.000 manns hafa hlaðið niður Safetravel appinu.

    Skipting styrkja

    10 milljónir til neyðarsöfnunar Rauða krossins

    Í mars ákvað Sjóvá að styðja við bakið á flóttafólki vegna stríðsins í Úkraínu með því að styrkja neyðarsöfnun Rauða krossins. Styrkurinn nam 50.000 kr. fyrir hvern starfsmann, samtals 10 milljónir króna. Að auki hélt starfsmannafélag Sjóvá spurningakeppni til styrkar neyðarsöfnuninni og söfnuðust þar 560.000 kr. sem komu frá starfsfólkinu sjálfu.

    Fjármagnið sem safnaðist í neyðarsöfnunina var nýtt til að mæta þörfum þolenda átakanna í Úkraínu og veita neyðarþjónustu, tryggja aðgengi að mat, vatni, heilbrigðisþjónustu, húsaskjóli og veita sálrænan stuðning.

    FO verkefni UN Women

    Í september ýtti UN Women á Íslandi úr vör nýrri FO herferð. Sjóvá var bakhjarl þessarar herferðar og gerði UN Women á Íslandi kleift að senda allan ágóða af sölu FO varningsins til verkefna UN Women, sem miða að því að uppræta kynbundið ofbeldi.

    Þetta var í áttunda sinn sem UN Women á Íslandi fór af stað í slíka herferð og að þessu sinni voru framleiddir FO vettlingar til styrktar hinsegin verkefnum UN Women. Vettlingarnir voru framleiddir af Varma og hannaðir af Védísi Jónsdóttur prjónahönnuði. Verkefnið gekk vonum framar og erum við hjá Sjóvá afar glöð að geta veitt þessu góða málefni lið.

    „Við hjá UN Women á Íslandi erum ótrúlega stolt af því að hafa fengið Sjóvá sem bakhjarl og samstarfsaðila í FO verkefni okkar. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir okkur að fá öflugt fyrirtæki, sem lætur ekki sitt eftir liggja að styðja við samfélagslega mikilvæg verkefni. Samstarfið og salan á okkar fyrsta varningi saman, FO vettlingunum, gekk svo vel að við höfðum ekki undan að láta framleiða fyrir okkur meira magn, en rúmar 13 milljónir króna voru sendar í hinsegin sjóð UN Women.“- Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi

    „Hefur gífurlega þýðingu fyrir samfélagið hér“

    Smábæjarleikarnir á Blönduósi eru á meðal þeirra fjölmörgu íþróttaviðburða sem Sjóvá styrkir á ári hverju. Leikarnir voru haldnir dagana 18. - 19. júní en þetta var í 18. skiptið sem þeir fara fram. Um er að ræða knattspyrnumót fyrir krakka í 8. og upp í 5. flokk en í ár kepptu 35 lið frá 10 félögum á mótinu.

    „Á meðan á mótinu stendur fyllist Blönduós af fótboltakrökkum og fjölskyldum þeirra en okkur telst til að um 400 manns hafi verið á leikunum í ár. Þetta er alltaf mjög skemmtilegt og hefur gífurlega þýðingu fyrir samfélagið hér, er orðið hluti af því. Það verður svo mikið líf í bænum, fólk að fara í sundlaugina, sækja veitingastaðina og svo framvegis, þannig að þetta er mikil innspýting fyrir allt og alla. Þessu fylgir að sjálfsögðu mikil vinna sem fólk leggur á sig í sjálfboðavinnu en hún er sannarlega þess virði og alltaf gaman að sjá hvað þetta er mikil upplifun fyrir krakkana.“- Vignir Björnsson, Ungmennafélaginu Hvöt

    Sjóvá samstarfsaðili Umhverfisráðstefnu Gallup

    Árlega framkvæmir Gallup Umhverfiskönnun þar sem Íslendingar eru spurðir um viðhorf og hegðun í tengslum við umhverfismál og loftslagsbreytingar og voru niðurstöðurnar í ár kynntar á Umhverfisráðstefnu Gallup í mars. Sjóvá var meðal samstarfsaðila ráðstefnunnar en þeir tryggja meðal annars að hægt sé að framkvæma rannsóknina og hafa hana öllum opna. Þannig geta fyrirtæki til dæmis nýtt sér niðurstöðurnar til að marka sér enn skýrari stefnu í þessum málaflokki, með hliðsjón af hegðun og viðhorfi almennings. Niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér.

    Mannauður

    Starfsánægja skiptir máli

    Ein af grundvallarforsendum framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina er ánægt starfsfólk. Í árlegri könnun Gallup, sem framkvæmd var í nóvember 2022, mældist starfsánægja starfsfólks Sjóvár í topp 8% fyrirtækja á Íslandi.

    Sjóvá var einnig í fimmta sinn, eitt af fimm fyrirtækjum sem fengu nafnbótina Fyrirtæki ársins í flokki stórra fyrirtækja í könnun VR í maí 2022. Þessi könnun er stærsta vinnumarkaðskönnun á Íslandi og veitir því góðan samanburð við helstu fyrirtæki landsins.

    Sjóvá er eina fyrirtækið á Íslandi sem hefur hlotið nafnbótina Fyrirtæki ársins árlega síðustu fimm árin.

    Framúrskarandi einkunn fyrir félagsþætti

    Í UFS áhættumati Reitunar sem birt var í september 2022 hlaut Sjóvá framúrskarandi einkunn fyrir liðinn Félagsþætti, eða einkunnina A1. Félagsþættir í mati Reitunar snúa að vinnuumhverfi annars vegar og velferð starfsfólks og viðskiptaánægju hins vegar. Nánar er fjallað um mat Reitunar í UFS kafla.

    Jafnrétti og jöfn tækifæri

    Hjá Sjóvá hefur um árabil verið unnið markvisst að því að tryggja jafnrétti og jöfn tækifæri innan fyrirtækisins. Á hverju ári eru skilgreindar aðgerðir byggðar á jafnréttisstefnu, með það að markmiði að stuðla að jafnri stöðu kynja. Þessar aðgerðir ná jafnt til launaákvarðana, ráðninga, stöðuveitinga og annarra tækifæra. Einnig er virkt eftirlit með þróun kjara og launa á markaði til að tryggja samkeppnishæf laun fyrir sambærilega vinnu, menntun og reynslu. Árangurinn af þessum aðgerðum er metinn reglulega með greiningum sem framkvæmdar eru af innri og ytri aðilum.

    Sjóvá var eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins til að fá jafnlaunavottun. Jafnlaunavottunin staðfestir að jafnlaunakerfi okkar, verklag við launaákvarðanir og eftirlit með kynbundnum launamun tryggir að starfsfólki sé ekki mismunað í launum né öðrum kjörum eftir kyni. Launamunur kynjanna hefur ávallt mælst lægri en 2% og á árinu 2022 mældist hann 1,2%.

    Jafnvægisvog FKA

    Sjóvá er stoltur styrktaraðili Jafnvægisvogarinnar sem er hreyfiaflsverkefni FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu, og forsætisráðuneytisins. Tilgangur verkefnisins er meðal annars að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að vera fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir. Á árlegri ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2022 hlaut Sjóvá viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, en hana hljóta þau fyrirtæki sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar.

    Sálfélagslegt áhættumat

    Góð vinnuvernd, áhersla á öryggismál og stuðningur við góða andlega og líkamlega heilsu starfsfólks eru mikilvægir þættir í heilbrigðri fyrirtækjamenningu. Árið 2015 varð Sjóvá meðal fyrstu fyrirtækja landsins til að framkvæma sálfélagslegt áhættumat í samræmi við lög um hollustuhætti og vinnuvernd og var það síðast lagt fyrir í maí 2022. Sálfélagslegt áhættumat mælir ýmsa þætti í starfsumhverfi starfsfólks sem geta haft áhrif á vellíðan og öryggi starfsmanna, eins og stjórnun, kröfur starfs, álag, streitu, samskipti, einelti eða áreitni, og eru niðurstöður matsins nýttar við gerð aðgerðaáætlana, fræðslu,  og forvarnarstarfs í þessum málaflokki. Sjóvá er með skýra forvarnar- og viðbragðsáætlun í eineltis-, áreitni- og ofbeldismálum sem miðað að því að tryggja sálfélagslegt og líkamlegt öryggi starfsfólks.

    Starfsaldur

    Fræðsla og starfsþróun

    Mikill metnaður er lagður í að taka vel á móti og þjálfa nýtt starfsfólk á fyrstu mánuðum í starfi. Allt starfsfólk sem er að hefja störf þarf að ljúka ákveðinni skyldufræðslu þar sem dregið er saman allt það helsta sem þarf að kynna sér fyrstu vikur og mánuði í starfi, s.s. starfs- og vinnulýsingar ásamt öryggis- og siðareglum. Símenntun og viðhald þekkingar er einnig lykilatriði í allri starfsemi Sjóvá. Metnaðarfull fræðsludagskrá er í boði hjá félaginu allt árið um kring og hefur regluleg rafræn fræðsla fyrir allt starfsfólk fest sig í sessi. Að auki er starfsfólk hvatt til að vera duglegt að sækja námskeið og ráðstefnur utanhúss sem styrkja það í starfi.

    Framúrskarandi fyrirtæki

    Árlega greinir Creditinfo rekstur íslenskra fyrirtækja og birtir lista yfir þau fyrirtæki sem hafa sýnt fram á framúrskarandi og stöðugan árangur í rekstri. Kröfurnar til að hljóta nafnbótina Framúrskarandi fyrirtæki hafa jafnframt aukist með auknum kröfum á upplýsingagjöf um sjálfbærnistefnu og rekstur. Sjóvá var líkt og undanfarin ár á lista Framúrskarandi fyrirtækja og glöddumst við einnig yfir að sjá hversu mörg þeirra fyrirtækja sem voru á listanum eru hjá okkur í viðskiptum, eða 299 talsins. Til að fagna þessum góða árangri þeirra var ákveðið að styrkja Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur í desembermánuði í þeirra nafni.

    Þú ert hér:

    1. Íslenska
    2. Um okkur
    3. Fjárfestar
    4. Ársskýrsla 2022
    5. Sjálfbærni
    Sjóvá
    • Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Kt. 650909-1270
    • Sjóvá-Almennar líftryggingar hf. Kt. 680568-2789
    • Kringlunni 5, 103 Reykjavík
    Hafðu samband
    Þjónustusími
    440 2000
    Tjónavakt
    440 2424
    Netfang
    sjova@sjova.is
    Vegaaðstoð
    440 2222
    Lagalegur fyrirvari
    Opnunartímar
    Kringlan
    Mán - Fim 9:00 - 16:00
    Fös 9:00 – 15:00
    Útibú
    Alla virka daga 11:00 – 15:00
    • Vottanir Sjóvá
    Hafðu samband Smelltu hér
    Þjónustusími
    440 2000
    94734A73-7B6C-480E-BF65-F0BF47918314Created with sketchtool.
    Netspjall
    Skilaboð
    Ábending
    Smelltu hér
    Vinsælar leitir
    Viðurkennd verkstæði Heimilistrygging Tilkynna tjón English

    Fá tilboð í tryggingar

    Engin skuldbinding

    Tilkynna tjón

    Fljótlegt og einfalt

    Hafðu samband

    Kringlunni 5 - 103 Reykjavík
    Opnunartími útibúa 9:00 - 16:00

    Þjónustusími: 440 2000

    Tjónavakt: 440 2424

    Vegaaðstoð: 440 2222

    Netfang: sjova@sjova.is
    Fax: 440 2020

    Gagnvirkar leiðir til að hafa samband
    Opna netspjall Ábendingar, kvartanir & hrós
    Mitt Sjóvá

    Á Mínu Sjóvá getur þú skoðað yfirlit yfir tryggingarnar þínar, tilkynnt tjón og margt fleira

    Opna Mitt Sjóvá
    • Facebook
    • Linkedin
    • Instagram

    Hvort viltu einstaklings- eða fyrirtækjatryggingar?



    Fáðu tilboð í tryggingarnar þínar og komdu í hóp ánægðra viðskiptavina Sjóvá

    Óska eftir tilboði

    Til að halda áfram þarftu rafræn skilríki eða að stofna aðgang að Mínu Sjóvá.
    Ertu nú þegar í viðskiptum við okkur?

    Smelltu þá hér til að tala við næsta lausa þjónustufulltrúa

    Fáðu tilboð í tryggingarnar þínar og komdu í hóp ánægðra viðskiptavina Sjóvá

    Hefja tilboðsferli

    Til að halda áfram þarftu rafræn skilríki
    Ekki með rafræn skilríki eða nú þegar í viðskiptum við okkur?

    Smelltu þá hér til að tala við næsta lausa þjónustufulltrúa