Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er skert athygli við akstur vegna farsímanotkunar einn stærsti áhættuþáttur umferðarslysa á heimsvísu og má ætla að um 12- 25% allra umferðarslysa megi rekja beint til notkunar farsíma við akstur. Ekki er ástæða til að ætla að þessar niðurstöður eigi ekki við hérlendis, þó að það hafi ekki verið rannsakað sérstaklega. Það er því sannarlega afar brýnt samfélagslegt verkefni að stuðla að því að samdráttur verði á notkun farsíma við akstur.
Herferðin „Ekki taka skjáhættuna“ sýndi fáránleika þess sem við erum í raun og veru að gera þegar við notum símann undir stýri. Markmiðið var að hvetja fólk til að setja tækin á akstursstillingu í akstri. Verkefnið var áberandi á vor- og haustmánuðum, bæði í gegnum auglýsingar í ýmsum miðlum og mikla og góða umfjöllun í fjölmiðlum. Verkefnið hlaut tvenn verðlaun á Íslensku auglýsingaverðlaununum Lúðrinum þann 7. mars 2025, fyrir Veggspjöld og skilti ársins og PR ársins.
Vísbendingar eru um að símanotkun undir stýri hafi minnkað á árinu 2024, sem er sannarlega mikið fagnaðarefni fyrir samfélagið allt. En betur má ef duga skal og munum við halda áfram að vinna að forvörnum í þessum efnum, með öflugum samstarfsaðilum okkar.
Sjá nánar um forvarnaverkefni ársins í umfjöllun um forvarnir.