Það er stefna Sjóvár að vera ábyrgt og virkt í samfélaginu og eru því m.a. árlega veittir styrkir til aðila sem vinna að ýmsum góðum málefnum í þágu samfélagsins. Kappkostað er að þeir fjármunir sem fara til styrktarmála styðji við hlutverk og stefnu félagsins, og því er áhersla lögð á að styrkja sérstaklega verkefni sem hafa ríkt forvarnagildi.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem tengjast forvörnum:
Fjölbreytt miðlun forvarna
Á árinu 2024 var unnið að fjölmörgum forvarnartengdum verkefnum líkt og verið hefur. Þannig voru reglulega birtar greinar um forvarnir á fréttamiðlum og skilaboð send til viðskiptavina, svo sem um brunavarnir, varnir gegn vatnstjóni og um öryggi í umferðinni. Efninu var miðlað með fjölbreyttum hætti til að reyna að ná til sem flestra, með greinaskrifum, viðtölum í fjölmiðlum og markpóstum.
Forvarnarstarf með fyrirtækjum
Líkt og áður var unnið öflugt forvarnarstarf með fyrirtækjum í viðskiptum má árinu. Áhættur ólíkra fyrirtækja voru greindar stöðugt yfir árið, tekin út tölfræði um óhöpp og slys og farið yfir með viðskiptavinum hvernig mætti koma í veg fyrir þau. Áhættur voru greindar eftir atvinnugreinum og viðeigandi forvarnarefni miðlað til fyrirtækja eftir eðli starfseminnar.
Ekki taka skjáhættuna
Stærsta forvarnarverkefni okkar á árinu var tvímælalaust herferðin „Ekki taka skjáhættuna“, sem unnin var í góðu samstarfi við Samgöngustofu og auglýsingastofuna Pipar. Markmið þessa átaksverkefnis var að draga úr notkun farsíma við akstur en rannsóknir hafa sýnt að um 12-25% allra umferðarslysa má rekja beint til farsímanotkunar undir stýri. Þörfin fyrir breytingu á þessari hegðun er því brýn. Verkefnið var áberandi bæði á vor- og haustmánuðum, í gegnum auglýsingar í ýmsum miðlum og mikla og góða umfjöllun í fjölmiðlum. Þessu verkefni er hvergi nærri lokið og þurfum við að halda mikilvægi þess á lofti áfram.
Morgunverðarfundir um forvarnir
Einn þáttur í virku samtali okkar um forvarnir við fyrirtæki eru morgunverðarfundir sem við höfum haldið um ýmis öryggismál sem eru í umræðunni hverju sinni. Á árinu 2024 voru haldnir tveir slíkir fundir. Í mars fór fram morgunverðarfundur um öryggi á vegum, þar sem sérfræðingar frá Vegerðinni og fyrirtækjunum Eimskip og Hertz og sérfræðingar frá Sjóvá héldu erindi. Tilefni fundarins var sú gríðarlega aukning sem orðið hefur á umferð á vegum landsins og fjölgun banaslysa í umferðinni.
Í nóvember var haldinn morgunverðarfundur um heita vinnu en tilefnið voru tíðir alvarlegir brunar sem upp hafa komið á byggingar- og framkvæmdasvæðum hérlendis og erlendis á undanförnum árum. Á fundinum héldu ýmsir sérfræðingar á sviði bruna- og tryggingamála erindi.
Til viðbótar við þessa stóru fundi voru einnig haldnir ýmsir aðrir vel sóttir viðburðir og fræðsla víða um landið. Má þar til dæmis nefna skoðunardag mótorhjólaklúbbsins Dreka í Fjarðarbyggð sem Sjóvá tók þátt í.
Styrkveitingar
Líkt og fyrri ár voru veittir styrkir til ýmissa aðila og samtaka sem vinna að forvörnum og samfélagsbótum. Slysavarnafélagið Landsbjörg fékk líkt og áður stærsta einstaka styrkinn enda gegna samtökin afar mikilvægu hlutverki fyrir samfélagið þegar kemur að öryggismálum og forvörnum. Sjóvá hefur verið aðalstyrktaraðili samtakanna um áratuga skeið og hefur samstarfið verið afar farsælt.
Skipting styrkja á árinu 2024
Önnur dæmi um styrkþega á árinu voru Blái Herinn, sem stendur að mikilvægu hreinsunarstarfi á strandlengju Íslands, og Umhyggja sem vinnur að hag langveikra barna, í gegnum hjólalið Team Rynkeby Iceland. Árið 2024 var Sjóvá einnig reglulegur bakhjarl Samhjálpar. Í samstarfi við Ljósið, endurhæfingu fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein, styrktum við einnig Ljósafoss þar sem gengið er upp hlíðar Esjunnar og síðan niður í myrkri þar sem þátttakendur hafa kveikt á höfuðljósi. Þannig myndast fallegur ljósafoss sem sést langar leiðir. Sjóvá styrkti einnig Hinsegin daga í Reykjavík 2024.
Framrúðuplástrar með forvarnagildi
Síðustu árin hefur verið unnið að átaki í að auka hlutfall framrúðuviðgerða og fækka um leið framrúðuskiptum. Átakið hefur meðal annars falist í dreifingu framrúðuplástra sem komið geta í veg fyrir að skemmdir á rúðu stækki og virku samtali við viðskiptavini og samstarfsaðila á verkstæðum um ábatann af þessu. Betur er sagt frá þessu verkefni og framgangi þess í umfjöllun um loftslagsbreytingar.
Áhættuskoðanir og þjónustuheimsóknir til fyrirtækja
Á árinu var farið í 73 áhættuskoðanir hjá fyrirtækjum víðs vegar um landið og rúmlega 600 þjónustuheimsóknir, þar sem meðal annars er farið yfir tækifæri í forvörnum, til að hægt sé að koma í veg fyrir slys og tjón.
Forvarnartengdir viðburðir
Haldnir voru 22 forvarnartengdir viðburðir og fræðsluerindi um land allt á árinu. Morgunverðarfundirnir tveir sem voru haldnir, um öryggi á vegum og heita vinnu, voru báðir afar vel sóttir og sköpuðust á þeim miklar umræður um umfjöllunarefnin. Þannig var mikið rætt um viðgerðir á vegum, merkingar á framkvæmdum og stóraukna farsímanotkun í umferðinni á fundinum um öryggi á vegum.
Greinar um forvarnir
6 greinar voru birtar um forvarnir á árinu, flestar á visir.is. Fleiri greinar og viðtöl við starfsfólk birtust á árinu þar sem forvarnir bar oftar en ekki líka á góma.
Markpóstar með forvarnaskilaboðum
Á hverju ári eru sendir markpóstar með forvarnaskilaboðum, bæði á einstaklinga í viðskiptum og fyrirtæki. Lögð hefur verið áhersla á að hafa þá ekki of marga, til að viðskiptavinum þyki ekki nóg um, og hafa skilaboðin skýr og einföld.